Ágrip af sögu Fjarðabyggðar

 

Fjarðabyggð varð til við sameiningu Eskifjarðarkaupstaðar, Neskaupstaðar og Reyðarfjarðarhrepps þann 7. júní 1998.  Fjarðabyggð er stærsta sveitarfélag á Austurlandi og voru íbúar þess um 3900 talsins, um áramótin 2005-2006.

  

Neskaupstaður er nyrstur byggðarkjarnanna og stendur við Norðfjörð.  Árið 1895 var löggiltur verslunarstaður á Nesi í Norðfirði, en þá var hafin þar þorpsmyndun.  Ástæður þéttbýlisþróunarinnar eru mjög ljósar, því um 1870 hófst saltfiskverkun í miklum mæli og við það elfdist útgerð, en Norðfjörður liggur mjög vel við gjöfulum fiskimiðum.  Árið 1905 urðu merk tímamót þegar Norðfirðingar eignuðust sína fyrstu vélbáta og voru  á þeim tíma gerðir út um 60 bátar til fiskveiða en íbúar Nesþorps orðnir um 355 talsins.  Hafði því talsverð fjölgun íbúa átt sér stað því árið 1895 voru þeir um 180. Árið 1913 var þorpið aðskilið frá sveitinni og nefnt Neshreppur og bjuggu þar þá 636 íbúar.  Þann 1. janúar 1929 fékk Neshreppur kaupstaðarréttindi og nefndist Neskaupstaður og voru íbúar hans þá 1103 að tölu.  Upp úr 1930 fór að draga úr íbúafjölgun og árið 1990 voru íbúar 1754 talsins.   Haustið 1993 var samþykkt að sameina Norðfjarðarhrepp og Neskaupstað undir nafni Neskaupstaðar og tók sameiningin gildi 11. júní 1994 og voru þá mörk sveitarfélagsins orðin þau sömu og fyrir 1913.  Íbúafjöldi í Neskaupstað er nú 1534 íbúar.

 

Eskifjarðarkaupstaður stendur við Eskifjörð, sem gengur inn úr  Reyðarfirði og er byggðin með ströndinni við norðanverðan fjörðinn.  Eskifjörður fékk fyrst kaupstaðarréttindi árið 1786.  Verslun hefur verið þar samfleytt frá árinu 1798, þegar danska verslunarfyrirtækið Örum og Wulff hóf starfsemi sína hér á landi og reisti fyrsta verslunarhúsið  í Útkaupstað.  Árið 1801 voru íbúar staðarins 21.  Embætti sýslumanns Suður-Múlasýslu  var flutt til Eskifjarðar árið 1853 og hefur verið þar síðan.  Veruleg íbúafjölgun hófst  fyrst  á Eskifirði í tengslun við síldveiðar Norðmanna á Austfjörðum, á seinni hluta 19. Aldar, og var íbúatalan kominn upp í 228 árið 1902.  Þann 1. janúar 1988 sameinuðust Eskifjarðarkaupstaður og Helgustaðarhreppur  og árið 1990 var íbúatala sveitarfélagsins 1100 íbúar.  Íbúafjöldi á Eskifirði er nú 1006 íbúar.  

 

Búðareyri við Reyðarfjörð er syðst byggðarkjarnanna.  Árið 1890 varð Búðareyri að löggiltum verslunarstað en árið 1884 höfðu Wathne-bræður, þeir Friðrik og Ottó, stofnað þar til útgerðar og verslunar.  Árið 1909 var Kaupfélag Héraðsbúa stofnað á Reyðarfirði og með tilkomu bílaaldar og bílvegar um Fagradal um 1920 varð Reyðarfjörður aðalverslunarstaður Héraðsins og fylgdi því mikil gróska á staðnum.  Árið 1930 tók Rafveita Reyðarfjarðar til starfa og er hún enn í notkun en hefur verið tengd við samveitukerfi Rafmagnsveitna ríkisins frá árinu 1958 og fær þaðan viðbótarrafmagn til að fullnægja orkuþörf staðarins.  Árið 1930 voru íbúar Búðareyrar um 300 og árið 1941 voru þeir 360.  Árið 1990 bjuggu 730 manns í sveitarfélaginu en nú eru íbúar á Reyðarfirði 650 talsins.

 

Sjávarútvegur og fiskvinnsla er aðalatvinnuvegur íbúa Fjarðabyggðar og þar eru tvö af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, Síldarvinnslan h/f og Hraðfrystihús Eskifjarðar h/f.  Árið 1997 reisti Síldarvinnslan eitt stærsta og fullkomnasta fiskiðjuver í Evrópu þar sem uppsjávarfiskar eru unnir til manneldis og nú er verið að hefjast handa við stækkun þess.  Hraðfrystihús Eskifjarðar tók nýja og fullkomna rækjuverksmiðju í notkun árið 1999.  Einnig eiga fyrirtæki þessi glæsilegan flota af nótaskipum og skuttogurum.

Góðar hafnir eru í öllum byggðarkjörnum sveitarfélagsins og á Eskifirði er útflutningshöfn Eimskips og skoðunarstofa Fiskistofu.  Hafnarsjóður Fjarðabyggðar er einn sá stærsti á landinu.

 

Í Fjarðabyggð er rekinn öflug og fjölbreytt þjónusta.  Meðal þjónustustofnana má nefna Fjórðungssjúkrahús Austurlands, Verkmenntaskóla Austurlands, útibú Vegagerðar Ríkisins, Skólaskrifstofu Austurlands, Náttúrustofu Austurlands, Heilbrigðiseftirlit Austurlands og útibú Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins.

 

Þá eru öflugir grunnskólar, tónskólar, leikskólar og æskulýðsmiðstöðvar starfræktar í öllum byggðarkjörnunum.  Verslun er einnig blómleg og fjölbreytt svo og rekstur hótela, gistihúsa og veitingahúsa.

 

Nokkur landbúnaður er í sveitarfélaginu, einkum í Norðfjarðarsveit, og í Neskaupstað er starfrækt mjólkurstöð.

 

Í Fjarðabyggð eru tveir friðlýstir fólkvangar.  Fólkvangurinn í Neskaupstað, við rætur Nípunnar, var fyrsti friðlýsti fólkvangur landsins og tók friðlýsingin gildi árið 1972.  Hólmanes, milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar, er friðlýst sem fólkvangur og að hluta sem friðland.  Í fólkvöngunum er mikil náttúrufegurð sem og í sveitarfélaginu öllu og Gerpissvæðið milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar er að verða eitt af vinsælustu gönguleiðarsvæðum landsins og hafa félagar í Ferðafélagi Fjarðamanna stikað þar fjölmargar gönguleiðir, eins og víða annars staðar í sveitarfélaginu, og gert það þannig aðgengilegt ferðamönnum.  Í nágrenni bæjarins Helgustaða við norðanverðan Reyðarfjörð eru einhverjar kunnustu silfurbergsnámur í heimi.  Þar var silfurberg grafið úr jörðu frá því á 17. öld og fram á fyrri hluta 20. aldar.  Helgustaðanáman er nú friðlýst sem náttúruvætti og eru nú uppi áætlanir af hálfu sveitarfélagsins og Náttúrustofu Austurlands um að opna hana að nýju svo hægt sé að njóta þessa sérstæða náttúrufyrirbæris.

 

Ein af perlum Fjarðabyggðar er skíðasvæðið á Oddsskarði en þar er samfelld 327 metra löng lyfta, sem hefst í 513 metra hæð og þegar komið er upp á topp þá er viðkomandi kominn í 840 metra hæð yfir sjávarmál.  Einnig er á svæðinu barnalyfta og glæsilegur skíðaskáli með veitingaaðstöðu.

 

Í Fjarðabyggð eru mjög athyglisverð söfn.  Á Reyðarfirði er Íslenska stríðsárasafnið, á Eskifirði er Sjóminjasafn Austurlands og í Neskaupstað er Náttúrugripasafn.  Öll þessi söfn eru afar forvitnileg og heimsækir þau fjöldi fólks árlega.