Hitaveita

Hitaveita

Hitaveita Fjarðabyggðar (sjá reglugerð) er sjálfstæð rekstrareining innan Orkuveitu Fjarðabyggðar, með sjálfstæða stjórn og fjárhag. Lögheimili hitaveitunnar er Hafnargata 2 á Reyðarfirði. Tilgangur Hitaveitu Fjarðabyggðar er að annast öflun, dreifingu og sölu á heitu vatni til kyndingar og neyslu á orkuveitusvæði sínu, svo og aðra nauðsynlega starfsemi sem því tengist. Veitusvæði, til dreifingar á hitaorku/heitu vatni, er allt svæðið innan marka þéttbýlisins á Eskifirði sem markast af Mjóeyri að utan og býlinu Eskifirði að innan. Hitaveitan hefur einkarétt til dreifingar og sölu á hitaorku/heitu vatni á orkuveitusvæði sínu.
Yfirstjórn hitaveitunnar er í höndum bæjarstjórnar Fjarðabyggðar. Veitustjóri hitaveitu er Andrés Gunnlaugsson.

 
Hitaveita Neskaupstaðar
(fjarvamaveita) var formlega stofnuð árið 1992 en þar áður hafði til margra ára verið rekin kyndistöð í íþróttahúsinu í Neskaupstað. Hitaveitan á og rekur tvo katla, 1350 kW olíuketil og 1000 kW rafskautaketil. Þannig er hægt að kynda upp með olíu eða rafmagni eftir því hvort talið er hagkvæmara hverju sinni auk þess sem samningur um ótrygga orku krefst þess að varaafl með öðrum orkugjafa sé til staðar.
Rafskautaketillinn er kynntur með ótryggri orku skv. sérstökum samningi við RARIK og Landsvirkjun frá 1992. Af þeim sökum þarf að hafa tiltækt varaafl (olíu) til að taka við en Landsvirkjun áskilur sér rétt til að taka rafmagnið út með litlum fyrirvara ef þörf krefur. Þessi samningur hefur gert Hitaveitunni kleift að bjóða upp á töluvert lægri orkugjöld en ella. Eftirtaldar stofnanir á vegum ríkis og bæjar eru tengdar hitaveitunni en hún þjónar aðeins stofnunum í Neskaupstað: Sundlaug, Félagsheimilið Egilsbúð, íþróttahús, Nesskóli, íbúðir aldraðra, Fjórðungssjúkrahúsið, Verkmenntaskóli Austurlands, heimavist V.A. og verknámshús V.A .
Guðmundur Helgi Sigfússon, forstöðumaður umhverfismálasviðs hefur yfirumsjón með rekstri, endurbótum og viðhaldi veitunnar. Umsjónarmaður hennar eru Guðmundur Stefánsson og Guðni Geirsson.