48. fundur félagsmálanefndar

13.11.2013

Félagsmálanefnd - 48. fundur  

haldinn í fundarsal á bæjarskrifstofunum að Hafnargötu 2 á Reyðarfirði

þriðjudaginn 12. nóvember 2013 og hófst hann kl. 16:30

Fundinn sátu: Svanbjörg Pálsdóttir formaður, Lára Björnsdóttir, Hjördís H. Seljan Þóroddsdóttir, Ragnheiður Ingibjörg Elmarsdóttir, Stefán Már Guðmundsson og Sigrún Þórarinsdóttir félagsmálastjóri.

Fundargerð ritaði:  Sigrún Þórarinsdóttir

Dagskrá:

 

1.

1309143 - Ársfundur Starfsendurhæfing   Austurlands 2013

 

Fundargerð ársfundar Starfa (Starfsendurhæfing   Austurlands) frá 4.október ásamt ársreikningi 2012 lögð fram til kynningar.

 

   

2.

1310139 - Frumvarp til laga um breytingu   á lögum um sjúkraskrár

 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um   sjúkraskrár lagt fram til umsagnar. Frumvarp þetta er samið í   velferðarráðuneytinu að höfðu samráði við embætti landlæknis, Landspítala og   Sjúkrahúsið á Akureyri. Frumvarpið var fyrst flutt á 141. löggjafarþingi og   er nú flutt öðru sinni óbreytt. Tilefni þess er að skýra frekar ákvæði 7.,   14. og 15. gr. laga nr. 55/2009, um sjúkraskrár, með hliðsjón af hlutverki   embættis landlæknis og ráðuneytisins þegar tekin er ákvörðun um aðgang að   sjúkraskrá.
 
  Markmið frumvarpsins er að taka af allan vafa um rétt borgarans til að bera   synjun um aðgang að sjúkraskrá, hvort sem um er að ræða eigin sjúkraskrá eða   sjúkraskrá látins aðstandanda, undir embætti landlæknis. Jafnframt er lagt   til að heimildir til að kæra þessar synjanir og ákvarðanir um leiðréttingu   eða eyðingu sjúkraskrárupplýsinga til ráðherra verði felldar brott. Í   frumvarpinu er loks lagt til að bætt verði við lögin ákvæði um nauðsynlegan   aðgang tæknimanna að sjúkraskrárkerfum þar sem slíkt ákvæði er ekki að finna   í lögunum í dag.
 
  Nefndin gerir engar athugasemdir fyrir sitt leyti.

 

   

3.

1310138 - Frumvarp til laga um   lögfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar

 

Frumvarp til laga um lögfestingu   Norðurlandasamnings um almannatryggingar lagt fram til umsagnar.
  Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar,sem hafa,   frá því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn)   öðlaðist gildi, beitt ákvæðum Evrópusambandsins um samræmingu reglna um   almannatryggingarfyrir launþega, sjálfstætt starfandi einstaklinga og   aðstandendur þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja, einnig gagnvart þeim   sem flytja á milli norrænu landanna,hafa komið sér saman um að gera nýjan   Norðurlandasamning um almannatryggingar.Samningurinn kemur til fyllingar   reglugerðum ESB og veitir í vissum tilvikum ríkari réttindi til handa   einstaklingum sem flytjast á milli norrænu landanna.
  Nefndin gerir engar athugasemdir fyrir sitt leyti.

 

   

4.

1310227 - Umsókn um rekstrarstyrk   fyrir árið 2014

 

Lögð fram beiðni um rekstrarstyrk frá   Kvennaathvarfinu vegna ársins 2014. Skv. fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir 75.000   kr. framlagi til Kvennaathvarfsins árið 2014. Félagsmálastjóra falið að senda   Kvennaathvarfinu svarerindi vegna styrkbeiðni.

 

   

5.

1309032 - Starfsáætlun 2014 -   Félagsmálanefnd

 

Félagsmálastjóri gerir grein fyrir   breytingum á starfsáætlun félagsmálanefndar vegna ársins 2014. Um er að ræða   breytta dagsetningu verkloka í verkefnum sem varða málefni aldraðra sem og   upplýsingar í inngangi þar sem fjallað er nánar um starfsemi félagsþjónustu   og umfang.

 

   

6.

1309166 - Skýrsla um þróun   vímuefnaneyslu ungmenna og framhaldskólanema á íslandi

 

Skýrsla um þróun vímuefnaneyslu ungmenna   og framhaldskólanema á Íslandi lögð fram til kynningar. Skýrslan er unnin af   Rannsóknum og greiningu en í henni ber að líta niðurstöður rannsókna meðal   nemenda í efstu bekkjum grunnskóla á Íslandi, árið 2013. Gagnasöfnun fór fram   með spurningalistakönnun í febrúarmánuði. Nú í ár er eingöngu horft til   vímuefnanotkunar, þ.á.m. daglegra reykinga, munn- og neftóbaksnotkunar,   ölvunardrykkju og neyslu ólöglegra fíkniefna. Í þessari skýrslu er dregin upp   lýsandi mynd af þróun og breytingum á tíðni vímuefnaneyslu unglinga sem sækja   nám í efstu bekkjum grunnskóla á Íslandi frá 1997 til 2013. Fyrst er fjallað   um reykingar, þá notkun munn- og neftóbaks, svo áfengisnotkun og að lokum   notkun kannabisefna og annarra ólöglegra vímuefna.
 
  Helsta niðurstaða þessarar úttektar um vímefnaneyslu unglinga í 8., 9. og 10.   bekk grunnskóla hér á landi er að tíðni hennar hefur lækkað mikið frá árinu   1997 og fram til ársins 2013. Eðli málsins samkvæmt er tíðnin ætíð hæst í 10.   bekk og lægst í 8. bekk með nemendur í 9. bekk þar á milli. Mestar breytingar   koma því jafnan fram í tíðni meðal nemenda í 10. bekk.

 

   

7.

1311018 - Siðareglur 2013

 

Nýjar siðareglur starfsmanna   fjölskyldusviðs í heimaþjónustu, liðveislu, búsetu- og ferðaþjónustu lagðar   fram til umræðu og afgreiðslu. Nefndin samþykkir siðareglur og vísar til   umræðu og afgreiðslu í bæjarráði.

 

   

8.

1208105 - Fjárheimildir í   fjárhagsáætlun 2013 - Félagsmálanefnd

 

Lagt fram minnisblað félagsmálastjóra um   tillögu að viðauka vegna fjárhagsáætlunar 2013. Í fjárhagsáætlun   félagsmálanefndar vegna ársins 2013 voru 10.535.575 kr. áætlaðar vegna   fjárhagsaðstoðar. Rauntölur miðað við áætlun eru nú að upphæð 11.003.004 kr.   Nýting á ársgrundvelli er því orðin um 104% miðað við fyrstu 10 mánuði   ársins.
  Fjárhagsaðstoð sem veitt er skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og   reglum Fjarðabyggðar hefur hækkað töluvert sl.ár. Er þessi þróun sambærileg   þróun annarra sveitarfélaga þar sem mikil útgjaldaaukning er vegna fjárhagsaðstoðar.   Má þar helst nefna að fjölgað hefur í hópi langtíma þiggjenda   fjárhagsaðstoðar og þeirra einstaklinga sem hafa fullnýtt bótarétt sinn   annars staðar. Nefndin vísar tillögu að viðauka til umræðu og afgreiðslu í   bæjarráði.

 

   

9.

1308067 - Aðgerðaáætlanir   sveitarfélaga: kynbundið ofbeldi

 

Lagt fram til kynningar bréf frá   verkefnahópi um aðgerðaráætlanir sveitarfélaga vegna kynbundins ofbeldis.

 

   

10.

1311028 - 89.mál til umsagnar - mótun   geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaráætlunar

 

Lögð fram til umsagnar   þingsályktunartillaga um mótun geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlanir en   Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra, í samvinnu við félags- og   húsnæðismálaráðherra, að móta geðheilbrigðisstefnu og gera aðgerðaáætlun þar   sem fram komi m.a. greining á núverandi geðheilbrigðisþjónustu, hvar þörfin   sé mest fyrir þjónustuna og hvernig megi mæta henni ásamt stefnumótun til   framtíðar í geðheilbrigðismálum fyrir alla landsmenn. Ráðherra leggi slíka   geðheilbrigðisstefnu fram á vorþingi 2014.
 
  Geðheilbrigðismál hafa verið að koma sífellt meira upp á yfirborðið í   þjóðfélagsumræðu síðustu ára og samfara því eykst þekking almennings á   málaflokknum. Ekki hefur áður verið mótuð sérstök geðheilbrigðisstefna heldur   hafa geðheilbrigðismál iðulega haft lítið vægi í heilbrigðisáætlunum   stjórnvalda til lengri tíma.
 
  Geðheilbrigðismál eru á mörkum heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu og þarf   áætlun í geðheilbrigðismálum að taka mið af því en heilbrigðisáætlun fjallar   eðli málsins samkvæmt að mestu leyti aðeins um heilbrigðisþjónustu. Þörf er á   samþættingu heilbrigðis- og félagsþjónustu fyrir þann hóp fólks sem þarf á   þjónustunni að halda svo skapa megi eðlilega samfellu í þjónustunni en í   núverandi kerfi er hætta á því að fólk lendi milli kerfa.

 

   

11.

1311026 - 72.mál til umsagnar - lög um   húsaleigubætur

 

Lagt fram til umsagnar frumvarp um   breytingu á lögum um húsaleigubætur. Frumvarpið var flutt á 140.   löggjafarþingi (112. mál) og 141. löggjafarþingi (49. mál) en náði ekki fram   að ganga. Húsnæðisvandi námsmanna á framhalds- og háskólastigi er   allverulegur og námsgarða skortir mjög. Fjölmargir námsmenn grípa því til   þess ráðs að leigja íbúð á hinum almenna leigumarkaði. Oft er íbúðinni deilt   með öðrum námsmönnum og það fyrirkomulag haft á að hver og einn hefur sitt   herbergi en bað og eldhús er sameiginlegt. Meginreglan varðandi þá sem búa í   herbergjum með sameiginlegum aðgangi að eldhúsi og baðherbergi er sú að þeir   skulu ekki njóta húsaleigubóta, enda teljist slíkt fyrirkomulag ekki til íbúðarhúsnæðis.
 
  Í ljósi þess að ekki er nægilegt framboð af heimavist eða námsgörðum, og   fjölmargir námsmenn geta því ekki nýtt sér slíkt búsetuúrræði, er hér lagt   til að sú takmörkun verði felld brott. Þar með verði aðstæður stúdenta   jafnaðar og þeir njóti sama stuðnings hvort sem þeir leigja á námsgörðum
  eða á almennum markaði.

 

   

 Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:25.