98. fundur eigna- skipulags- og umhverfisnefndar

12.8.2014

Eigna- skipulags- og umhverfisnefnd - 98. fundur  

haldinn í fundarsal á bæjarskrifstofunum að Hafnargötu 2 á Reyðarfirði, mánudaginn 11. ágúst 2014 og hófst hann kl. 14:00

Fundinn sátu Eiður Ragnarsson, Ragnar Sigurðsson, Stefán Már Guðmundsson, Kristjana Guðmundsdóttir og Guðmundur Elíasson.

Fundargerð ritaði Guðmundur Elíasson mannvirkjastjóri.

Eyrún Arnardóttir frá MAST, Sigríður Kristjánsdóttir og Sigrún Ágústsdóttir frá Umhverfisstofnun og Helga Guðrún Jónasdóttir sátu fundinn undir lið 1

Valur Sveinsson sat fundinn undir liðum 2 – 5.

Esther Ösp Gunnarsdóttir var í síma undir lið 1.

Svanhvít Yngvadóttir boðaði ekki forföll.

Dagskrá:

 

1.

1407100 - Flúormælingar 2014

 

Að loknum fundi með fulltrúum Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar telur eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd (ESU) ljóst, miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja, að almenningi stafar ekki hætta af flúorlosun frá Alcoa Fjarðaáli í Reyðarfirði.
Stakar flúormælingar fela af margvíslegum ástæðum í sér afar takmarkað upplýsingagildi og mynda langtímamælingar af þessum sökum þann viðmiðunarkvarða sem gæta verður að í þessu sambandi. Mælingar hafa staðið óslitið yfir frá því að álverið í Reyðarfirði hóf starfsemi og er ekkert í þeim niðurstöðum sem bendir til þess að íbúum sé hætt vegna flúorlosunar álversins.
ESU leggur þunga áherslu á mikilvægi þess fylgst sé af kostgæfni með mögulegum hættum sem íbúum og umhverfi kann að stafa af losun lofttegunda frá umræddri starfsemi. Á það ekki einungis við um sjálfar mælingarnar og úrvinnslu þeirra heldur einnig upplýsingamiðlun til almennings.  Nefndin leggur ekki síður þunga áherslu á, að Alcoa Fjarðaál framfylgi áfram, sem hingað til, ýtrustu varúðarreglum gagnvart mögulegum umhverfisáhrifum og aðgæti með reglubundnum hætti hvort ástæða sé til að herða slíkar reglur enn frekar eða framkvæmd þeirra. Í ljósi þess að fréttaflutningur af flúormælingum í Reyðarfirði hefur ítrekað og að nauðsynjalausu vakið áhyggjur hjá íbúum í Fjarðabyggð af heilsufarslegu öryggi, beinir ESU því til bæjarstjórnar að hlutlægar upplýsingar verði gerðar aðgengilegar íbúum á vef sveitarfélagsins, í samstarfi við fagaðila og fræðimenn s.s. hjá Náttúrustofu Austurlands, Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og háskólasamfélaginu. Sú staða er ekki ásættanleg fyrir Fjarðabúa að þeir telji ástæðu til að vantreysta áhrifum nánasta umhverfis á líf sitt og heilsu, eigi það ekki við full rök að styðjast.  ESU leggur einnig til við yfirstjórn Umhverfisstofnun og Matvælastofnunar, að kannað verði hvort leggja þurfi, í samskiptum þessara stofnana við fjölmiðla, aukna áherslu á faglega og gagnsæja miðlun upplýsinga til almennings.

 

   

2.

1407076 - 730 Hraun 1 - byggingarleyfi - Gasgeymsla og Sprinklerskúr

 

Lögð fram byggingarleyfisumsókn frá Alcoa Fjarðaál sf, dagsett 11. júlí 2014, þar sem sótt er um leyfi fyrir uppsetningu varanlegs LPG gastanks í stað tveggja ISO tanka ásamt sprinklerbúnaði.
Nefndin samþykkir umsóknina og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út leifi þegar öll tilskilin gögn liggja fyrir.

 

   

3.

1407077 - 740 Nesgata 14 - Byggingarleyfi - Leikskóli

 

Lögð fram byggingarleyfis- og lóðarumsókn Guðmundar Elíassonar f.h framkvæmdasviðs Fjarðabyggðar, dagsett 22. júlí 2014, vegna byggingar 1.424,3 m2 og 4.906,3 m3 leikskóla við Nesgötu 14 á Norðfirði. Hönnuður er Páll V. Bjarnason, arkitekt hjá P-ark teiknistofu sf.

Nefndin samþykkir lóðarúthlutunina fyrir sitt leyti og vísar endanlegri afgreiðslu til bæjarráðs. Nefndin samþykkir byggingarleyfisumsóknina og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út leyfi þegar öll tilskilin gögn liggja fyrir.

 

   

4.

1407102 - Endurnýjuð umsókn um breytingu á svölum Melgerði 13

 

Lögð fram umsókn nokkurra íbúa Melgerðis 13 á Reyðarfirði um endurnýjun á byggingarleyfi vegna svalalokana á húsinu, dagsett 20. júlí 2014.
Nefndin samþykkir umsóknina og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út leyfi þegar öll tilskilin gögn liggja fyrir.

 

   

5.

1406056 - 735 Ofanflóðvarnir í Hlíðarendaá

 

Framlagðar til kynningar tillögur að útfærslu á ofanflóðavörnum í Hlíðarendaá á Eskifirði. Bæjarráð hefur samþykkt að kynning verði fyrir bæjarstjórn á fyrsta fundi eftir sumarleyfi og í framhaldi verði kynningarfundur fyrir íbúa. Bæjarráð er hlynnt framkvæmdinni og vísar hönnun hennar til umfjöllunar eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar og til kynningar á bæjarstjórnarfundi 21. ágúst n.k. og kynningarfundar íbúa. Nefndin samþykkir tillöguna fyrir sitt leyti.

 

   

6.

1407058 - Ályktanir 9.fundar sveitarstjórnarvettvangs EFTA um loftslags- og orkumál og málefni norðurslóða

 

Ályktanir 9. fundar sveitarstjórnarvettvangs EFTA um loftlags- og orkumál og málefni norðurslóða lagðar fram til kynningar.

 

   

7.

1407033 - Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2015

 

Reglur um fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2015 - 2018 hafa verið staðfestar af bæjarráði. Lagðar fram til kynningar en í þeim koma fram verklagsreglur og tímasetningar við undirbúning og úrvinnslu fjárhagsáætlunar hjá nefndum.

 

 

   

8.

1406134 - Götuljós við skólamannvirki

 

Bæjarráð hefur samþykkt að fela framkvæmdasviði að vinna kostnaðarmat á uppsetningu gönguljósa við skólamannvirki Fjarðabyggðar og leggja matið fyrir bæjarráð og eigna- skipulags- og umhverfisnefnd.
Lagt fram kostnaðarmat, dagsett 15. júlí 2014, á uppsetningu gönguljósa við skólamannvirki Fjarðabyggðar. Nefndin vísar málinu til fjárhagsáætlanagerðar.

 

   

9.

1310093 - Skýrsla vegna umhverfismála á Fáskrúðsfirði

 

Lagt fram bréf frá Gunnari Geirssyni og Steini B Jónassyni, dagsett 24. júlí 2014, varðandi bátinn Rex og umhverfi hans. Nefndin þakkar bréfriturum og felur mannvirkjastjóra að svara spurningum sem fram koma í bréfinu.

 

   

10.

1406159 - Starfsleyfi fyrir Samskip að Hafnargötu 5

 

Lagt fram bréf frá Andrési Elíssyni, dagsett 31. júlí 2014, varðandi gegnumkeyrslu á lóð sem tilheyrir Strandgötu 1.
Nefndin bendir á bókun bæjarráðs nr. 390 þar sem meðal annars kemur fram:
Niðurstaða bæjarráðs er sú að sett verði eftirfarandi skilyrði við leyfisveitingu fyrir starfsleyfi fyrir flutninga- og vöruflutningamiðstöð að Hafnargötu 5.
* Skjólveggur verði settur upp á lóðarmörkum að Hafnargötu til að takmarka sýn inn á lóð og önnur áhrif starfseminnar út fyrir lóðina.
* Að starfsemi starfsleyfishafa fari fram innan lóðarmarka að Hafnargötu 5.
Jafnframt mælist bæjarráð til þess að umferð á vegum starfsleyfishafa verði með þeim hætti að eknar séu styðstu umferðarleiðir frá Hafnargötu 5 og að Ægisgötu.

Einnig vill nefndin árétta að akstursaðkoma að Hafnargötu 5 sé einungis frá Hafnargötu. Nefndin felur mannvirkjastjóra að svara bréfritara.

 

   

11.

1408019 - Tilnefningar í landbúnaðarnefnd 2014 - 2018

 

Nefndin felur formanni nefndarinnar að fá samþykki tilnefndra aðila um setu í landbúnaðarnefnd og leggja fyrir næsta fund nefndarinnar.

     

12.

1311161 - Húsnæðismál Tónskóla Neskaupstaðar

 

Lagt fram yfirlit um stöðu framkvæmda við Tónskóla Neskaupstaðar dagsett 8. ágúst 2014. Ljóst er að ástand hússins er verra en áætlað var og frekari viðhaldsaðgerða er þörf. Mannvirkjastjóra er falið að taka saman kostnaðar- og tímaáætlanir til lagfæringa og leggja fyrir næsta fund nefndarinnar.

 

   

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 16:57.