Félagslíf

Reipitog á sjómanndag

Félagsstarf er með fjölbreyttu móti í Fjarðabyggð. Á tónlistarsviðinu eru starfandi kórar, jazz- og blúsfélag og áhugafólk um harmonikkuleik á sér samastað í Félagi harmonikkuunnenda í Neskaupstað.  Ferðafélag Fjarðamanna og Göngufélag Suðurfjarða halda uppi kröftugu félagsstarfi fyrir útivistarfólk, enda geymir Fjarðabyggð ógrynni af skemmtilegum gönguleiðum og öðrum frábærum möguleikum á útivist. Félagsstarfið í íþróttum stendur ekki síður í blóma. Golfklúbbarnir eru þrír og kjakklúbburinn Kaj hefur komið ár sinni vel fyrir borð á Norðfirði. Þá eru ótal boltaíþróttafélög, hestmannafélög og skíðafélög starfandi.

Fótboltavöllurinn í Neskaupstað

Kvenfélög, Rótarý- og Lions-klúbbar hafa löngum haldið uppi merkjum öflugs starfs í góðgerðar- og mannúðarmálum ásamt þeim fjórum Rauðakrossdeildum sem eru starfandi í Fjarðabyggð.  Sumarið er tíminn í Fjarðabyggð. Sumarhátíðirnar eru jafn fjölbreyttar og þær eru margar. Eistnaflugið  hefur markað þung spor í rokk- og þungarokkssögu landsins, á meðan Neistaflug og Franskir dagar halda upp merkjum fjölskylduhátíða í Fjarðabyggð.  Leitast er hér við að bregða upp lýsandi mynd af félagsstarfinu í Fjarðabyggð.  Umfjöllunin er ekki tæmandi, en gefur ágæta hugmynd um það sem er í boði allan ársins hring af reglubundnu félagsstarfi og viðburðum.