Áhugaverðir staðir

Völvuleiðið

Völvuleiði

Efst í Hólmahálsinum, nokkru ofan við veginn, er leiði völvunnar sem hefur verndað Reyðarfjörð og Eskifjörð fyrir utanaðkomandi árásum um aldir.

Einbúi í Jafnadal

Einbúi

Einbúi er svo til innst í Jafnadal sem gengur inn úr Stöðvarfirði. Einbúi samanstendur af nokkrum sérstæðum stórum steinum sem standa stakir í annars sléttu umhverfi.

Hólmanes

Hólmanesið

Fólkvangur á nesinu milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar. Mikið fuglalíf og sékennilegar bergmyndanir. Afar ánægjulegur staður til útiveru, hvort sem er í klettum eða fjöru.

Steinasafn Petru - Stöðvarfirði

Steinasafn Petru Stöðvarfirði

Steinasafn Petru Sveinsdóttur á Stöðvarfirði er fyrir löngu orðið landsfrægt, enda er heimssókn í garðinn hjá Petru ógleymanleg þeim sem þangað koma.

Gamla kirkjan - Stöðvarfirði

Kirkjan á Stöðvarfirði

Gamla kirkjan á Stöðvarfirði sendur reisuleg yfir þorpinu og er eitt af sérkennum þess. Kirkjan var afhelguð árið 1991, þegar nýja kirkjan sem stendur utar í þorpinu var tekin í notkun. Nú er ferðaþjónustan Kirkjubær rekin í Gömlu kirkjunni.

Stórkerald, Tyrkjaurð - Stöðvarfirði 

Stórkerald

Framan í fjallinu Steðja, sem er fyrir ofan þorpið, er stór geil inn í fjallið sem heitir Stórkerald. Þangað er sagt að Stöðfirðingar hafii flúið undan Tyrkjum og rutt síðan yfir þá grjóti þegar þeir sóttu að þeim. Urðin framan við Stórkeraldið heitir því Tyrkjaurð.

Saxa - Stöðvarfirði 

Saxa Stöðvarfirði

Skammt frá eyðibýlinu Bæjarstöðum utan við Lönd er niður við sjó klettaskoran Saxa. Sérstakt náttúrufyrirbrigði, þar sem úthafssaldan gengur inn í klettaskoru og spýtist síðan hátt upp í loft í tilkomumiklum brimgosum. Nafnið mun vera af því dregið að þönglar og þari sem í gegn fara saxast í smátt.

Hafnarnes

Frá Hafnarnesi

Á 19. öld reis í Hafnarnesi þorp sem hafði afkomu sína aðallega af sjósókn. Flestir munu íbúarnir hafa orðið rétt rúmlega 100 í upphafi 20. aldar. Samkvæmt fasteignamati árið 1918 voru skráð 12 íbúðarhús í þorpinu, en byggðin lagðist að mestu af á 7. og 8. áratugnum. Í dag má finna ýmsar minjar á svæðinu um þessa byggð.

Franski spítalinn - Fáskrúðsfirði

Franski Spítalinn í Hafnarnesi

Franski spítalinn er stórt og reislulegt hús sem var upphaflega reist í Búðakauptúni (Fáskrúðsfjörður) árið 1903 sem sjúkrahús fyrir franska sjómenn sem gerðu út á sjóinn úti fyrir Austurlandi.  Húsið var síðan flutt út í Hafnarnes árið 1939 þar sem það var nýtt sem fjölbýlishús lengi vel.  Franski spítalinn var svo fluttur aftur til Fáskrúðsfjarðar árið 2010 og vinnur Minjavernd nú að því að endurbyggja gamla spítalann sem hótel sem er ráðgert að opni árið 2014.

Sandfell - Fáskrúðsfirði

Sandfell

Sandfell er líparítfjall sem stendur sunnan megin í Fáskrúðsfirði. Þegar líparítkvika treðst á milla hraunlaga myndast bergeitill eins og Sandfell. Bergeitillinn er talinn vera um 600 m. þykkur og þykir eitt besta sýnishorn frá tertíertíma á norðurhveli jarðar.

Fáskrúðsfjörður

Franska safnið Fáskrúðsfirði

Þéttbýlið í Fáskrúðsfirði var áður kallað  Búðakauptún en þar  er fjöldi gamalla húsa sem búið er að endurbyggja og sitja þau skemmtilegan svip á bæinn.  Ýmsar minjar eru þar frá dögum franskra sjómanna eins og bústaður franska consulsins sem var síðar nýtt sem héraðslæknisbústaður og ráðhús en verður nýtt í framtíðinni sem hluti af hóteli.

Franski kirkjugarðurinn í Fáskrúðsfirði

Franskir Dagar 2012

Nokkru fyrir utan byggðina í Fáskrúðsfirði við Krosseyri í landi Kappeyrar er kirkjugarður frá tímum franskra sjómanna við Íslandsstrendur. Í garðinum eru þekktar 49 grafir franskra sjómanna.

Kolfreyjustaður - Fáskrúðsfirði

Kirkjan á Kolfreyjustað

Kolfreyjustaður hefur frá fronri tíð verið prestsetur Fáskrúðsfirðinga. Árið 1913 var sókninni skipt í tvennt og kirkja reist í Búðakauptúni, en báðum sóknunum áfram þjónað frá Kolfreyjustað. Sóknarkirkjan á Kolfreyjustað var byggð 1878 en hún hefur síðan verið endurbyggð.

Skrúður - Fáskrúðsfirði

Skrúður úti fyrir Fáskrúðsfirði

Úti fyrir austurströnd Fáskrúðsfjarðar eru þrjár eyjar, Æðasker, Andey og Skrúður. Skrúðurinn rís glæsilega hátt úr sjó eins og nafn hans ber merki um. Vel þekktar eru sagnirnar af bóndanum í Skrúðnum, en hann var einn þriggja bræðra, risana í Skrúðskambi við Streitishvarf og í Papey. Þeir bræður sáu hver til annars og gátu kallað sín á milli.

Fólkvangurinn í  Norðfirði

Úr fólkvanginum í Neskaupstað

Stuttar gönguleiðir og áhugaverðir staðir s.s. Páskahellir og Urðir. Þar er fræðslustígur með ábendingum um ýmis náttúrufyrirbæri. Skemmtilegur útivistarstaður.

Hengifoss - Norðfirði

Hengifoss

Hæsti foss í Norðfirði fellur í samnefndri á úr Oddsdalnum niður í Seldal í afar fallegu og gróðursælu gljúfri.

Rauðubjörg - Norðfirði

Rauðubjörg

Falleg líparítbjörg á Barðsnesi við Norðfjarðarflóa. Norðfirðingar hafa löngum sagt að ef sólin glampar á Rauðubjörg að kvöldi, þá viti það á gott veður næsta dag.

Hellisfjörður

Hellisfjörður

Fallegur og gróðursæll eyðifjörður sem gengur inn úr Norðfjarðarflóa. Þar má enn sjá leifar gamallar hvalstöðvar sem starfrækt var í byrjun 20. aldar.

Viðfjörður

Viðfjörður

Syðstur fjarðanna þriggja við Norðfjarðarflóa.  Þórbergur Þórðarson skrifaði bókina Viðfjarðarundrin, um mikinn draugagang sem átti sér stað í Viðfirði. Allt fram á síðustu ár hafa menn orðið varir við undarlegar uppákomur í þessum ævintýralega firði.

Sandvík

Sandvík

Eyðivík norðan við Gerpi, þar sem áður var austasta byggða ból á landinu. Við Sandvík er kenndur draugurinn Glæsir, sem fylgir gjarnan Sandvíkingumog tekur ofan höfuðið þegar hann heilsar fólki.

Gerpir

Gerpir

Austasti oddi landsins og sennilega elsti hluti Íslands

Vöðlavík

Vöðlavík

Eyðivík sunnan Gerpis þar sem áður var fjöldi bæja. Mikil og skemmtileg sandfjara er í víkinni. Þar hafa orðið hörmuleg sjóslys á liðnum árum. Til Vöðlavíkur er jeppavegur.

Silfurbergsnáman Helgustöðum - Eskifirði

Silfurbergnáman

Einhver kunnasta silfurbergsnáma í heimi. Þar var silfurberg grafið úr jörðu frá því á 17. öld og fram á fyrri hluta 20. aldar. Þaðan er komið mest af því silfurbergi sem er að finna á söfnum víða um heim. Einnig var silfurbergið notað í ýmis tæki, s.s. smásjár, áður en gerviefni komu til. Helgustaðanáman er nú friðlýst sem náttúruvætti.

Dalatangi 

Dalatangi

Dalatangi er ysta nes á fjallgarðinum Flatafjalli milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar. Þar rétt hjá eru sýslumörk Norður- og Suður-Múlasýslu. Á Dalatanga var fyrst reistur viti árið 1899 og hefur þar verið mönnuð veðurathugunarstöð frá árinu 1938. Vitahúsið á Dalatanga geymir jafnframt eina hljóðvita landsins.