Menning

Safnakostur Fjarðabyggðar spannar allt frá almennum bókasöfnum að margs konar byggðatengdum söfnum sem geyma sögu sveitarfélagsins hvert með sínu móti. Við uppbyggingu sögulegra safna hefur áhersla verið lögð á að laða fram andrúm og aðstæður liðins tíma. Sjóminjasafn Austurland geymir gagnmerkar heimildir um sögu útgerðar hér við land og verslunar. Þá er Íslenska stríðsárasafnið ekki síður merk heimild um hernám landsins og síðari heimsstyrjöldina. Þá eru þrjú af söfnum Fjarðabyggðar til húsa í Safnahúsinu Norðfirði, hvert um sig einstakt að gerð og uppbyggingu. Á meðan Náttúrugripasafnið lýsir fánu landshlutans, gerir Sjóminja- og smiðjusafn Jósafats Hinrikssonar hand- og iðnverki fyrri alda góð skil. Myndlistarsafn Norðfirðingsins Tryggva Ólafssonar er svo á neðri hæð safnahússins. Bókasöfnin í Fjarðabyggð eru fimm talsins og hafa þá sérstöðu að vera jafnframt þjónustugáttir fyrir stjórnsýslu sveitarfélagsins. Þar má því einnig nálgast upplýsingar um þjónustu Fjarðabyggðar og eyðublöð auk bókakostsins.

Safnastofnun Fjarðabyggðar hefur umsjón með safna- og menningarmálum sveitarfélagsins. Forstöðumaður hennar er Pétur Sörenson, petur.sorensson@fjardabyggd.is, sími 470 9063.
Söfnin sem heyra undir safnastofnun eru:

 • Íslenska stríðsárasafnið á Reyðarfirði
 • Sjóminjasafn Austurlands á Eskifirði
 • Myndasafn Eskifjarðar
 • Náttúrugripasafnið í Neskaupstað
 • Sjóminja- og smiðjumunasafn Jósafats Hinrikssonar í Neskaupstað
 • Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar í Neskaupstað
 • Mynda- og skjalasafnið í Neskaupstað
 • Bókasafnið í Neskaupstað
 • Bókasafnið á Eskifirði
 • Bókasafnið á Reyðarfirði
 • Bókasafnið á Fáskrúðsfirði
 • Bókasafnið á Stöðvarfirði