C'est la Vie - Það er lífið

Fáskrúðsfjörður er fallegur fjörður fyrir miðju Austfjarða. Nafn sitt dregur fjörðurinn af eyjunni Skrúði úti fyrir firðinum. Í firðinum voru áður tvö sveitarfélög, Fáskrúðsfjarðarhreppur og Búðahreppur, en Búðahreppur varð til árið 1907 þegar þéttbýlið Búðir var gert að sérstöku sveitarfélagi.

Atvinnulíf byggist að mestu á sjávarútvegi og vinnslu sjávarafurða, auk smærri fyrirtækja í iðnaði og verslun, en alla helstu þjónustu er að finna á Fáskrúðsfirði.

Seinni hluta 19.aldar og fram á 20.öld var Fáskrúðsfjörður ein helsta bækistöð franskra sjómanna hér á landi og óvíða á Íslandi er að finna jafn miklar minjar tengdar þeim, s.s. hús, grafreiti o.fl. Ýmis örnefni tengjast veru Frakka hér og einnig eru í firðinum örnefni sem tengjast Tyrkjaráninu 1627. Þjóðhátíðardagur Frakka 14. júlí er fánadagur á Fáskrúðsfirði.  Íbúar Fáskrúðsfjarðar eru í dag um 710.

Sorry we can't display map

Áhugaverðir staðir

Eyjan Skrúður

Skrúður úti fyrir Fáskrúðsfirði

Er hin mesta fuglaparadís og hefur lokkað til sín margan ferðalanginn og fuglaskoðarann. Þar verpa m.a. Lundi, rita, súla, svartfugl, og svala. Þangað upp er erfitt að komast og ekki á færi nema staðkunnugra. Í eyjunni er hellir, Skrúðshellir, sem talinn er stærstur hella á Austurlandi. Þar höfðust vermenn við þegar róið var úr Skrúðnum áður fyrr. Í hellinum verpir Lundi og þykir furðu sæta að hann verpir á gólf hellisins, án þess að grafa sér holu. Ýmsar þjóðsögur segja að í hellinum hafi búið tröllkarlinn Skrúðsbóndinn og hafi hann tekið sér að kvonfangi prestdótturina á Hólmum við Reyðarfjörð.

Franski spítalinn

Franski spítalaklasinn Fáskrúðsfirði

Spítalinn var byggður á árunum 1903 - 1904 en var færður af grunninum árið 1940 og fluttur í Hafnarnes sunnan fjarðarins. Þar var hann notaður sem fjölbýlishús fram á 8. áratuginn.  Nú vinnur Minjavernd að endurbyggingu spítalans, fyrir framan Læknishúsið.  Gert er ráð fyrir að í Læknishúsinu og Franska spítalanum verði rekið hótel og safn um frönsku sjómennina.

Grund

Hamarsgötu 8 reistu Frakkar árið 1897, sem sjúkraskýli, en síðar var byggð kapella við húsið. Húsið var notað sem sjómannaheimili eftir að reistur hafði verið spítali á staðnum. Árið 1924 var kapellan rifin frá húsinu og notuð sem efri hæð á húsið Dagsbrún sem enn stendur við Skólaveg 70A. Neðan við Grund létu Frakkar reisa minnisvarða um Carl A. Tulinius sem var ræðismaður Frakka á síðari hluta 19. aldar. Minnisvarðinn var afhjúpaður 28. ágúst 1902.

Manon

Hluti Hafnargötu 21, var reist sem pakkhús um 1920, en húsið var reist úr fjölum samnefndrar skútu sem strandaði við Skálavík utan Kolfreyjustaðar. Mannbjörg varð og var "góssið" úr skútunni selt á uppboði.

Franski kirkjugarðurinn

Er rétt utan við þorpið að norðanverðu. Þar er minnisvarði með nöfnum 49 franskra og belgískra sjómanna sem létu lífið á Íslandsmiðum. Á frönsku dögunum 2009 komu fulltrúar frá félagi sjómanna í vinabæ Fjarðabyggðar Gravelines - og afhentu nýja krossa á leiði frönsku sjómannana.  Grafreiturinn sést vel frá þjóðveginum og er ágætis göngufæri niður að honum.

Templarinn

Búðarvegi 8, var reistur nokkru fyrir aldamótin 1900 og hýsti flestar menningarsamkomur Fáskrúðsfirðinga allt fram til ársins 1963 þegar félagsheimilið Skrúður var tekið í notkun. Í Templaranum var safnið Fransmenn á Íslandi áður en safnið var flutt í Franska spítalann og Læknishúsið við Hafnargötu.

Minnisvarði um skipsskaða

Vísindamannsins og heimskautafarans dr. Carcot er staðsettur innan við Consulhúsið að Hafnargötu 12. Skip hans Purquoi pas, fórst í Straumfirði á Mýrum árið 1936.

Minnisvarði um Berg Hallgrímsson

Stendur við þjóðveginn í gegnum bæinn, við Búðaveg 36. Bergur var stórathafnamaður í byggðarlaginu og á sínum tíma einn af þekktari útgerðamönnum og síldarverkendum landsins.

Læknishúsið

Byggðu Frakkar árið 1907 fyrir Georg Georgsson þáverandi ræðismann Frakka og lækni við Franska spítalann. Húsið, sem stendur við Hafnargötu 12, var að mestu gert upp á árunum 1990 - 1991. Þar voru bæjarskrifstofur fram til ársins 2006.

Báturinn Rex NS 3

Sem smíðaður er af Einari Sigurðssyni í Odda, er eitt vitni þeirrar grósku sem hér var í skipasmíði á 20. öldinni. Báturinn stendur rétt utan við íþróttavölinn innst í bænum. Minnisvarða um Einar hefur verið komið fyrir á hæðinni ofan við bátinn.

Fyrir útivistarunnendur

Teygt úti í náttúrunni

Út er komið kort yfir gönguleiðir á Suðurfjörðum Austfjarða. Leiðir um Stuðlaheiði til Reyðarfjarðar, Reindalsheiði yfir í Breiðdal, og Víkurheið til Stöðvarfjarðar hafa verið merktar.

Sandfell

Sandfell

Sunnan fjarðarins, er 743 m hátt líparítfjall sem minnir helst á Baulu syðra. Bergeitill þessi er talinn vera 600 m þykkur og eitt besta sýnishorn frá tertíertíma á norðuhveli jarðar. Mjög skemmtileg gönguleið er upp á Sandfell og tekur gangan 2 - 3 klst. Leiðin er ekki stikuð.

Hoffell

Hoffell

Er tilgnarlegt fjall sem gnæfir yfir firðinum ofan þorpsins. Þangað er göngufæri og tekur gangan 4 - 5 klst. Leiðin er ekki stikuð.

Halaklettur

Halaklettur

Er ofan við Vattarnes, yst við norðanverðan fjörðinn. Á klettinn er þægilegt göngufæri og er best að leggja upp rétt utan Kolfreyjustaðar. Gangan tekur 1 - 2 klst. Þaðan er frábært útsýni til allra átta. Leiðin er ekki stikuð.

Yfir Stöðvarskarð

Í Stöðvarskarði

Milli Stöðvarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar liggur raflína og með henni vegslóði. Yfir skarðið er góð gönguleið og tekur gangan u.þ.b. 2 klst.

Yfir Staðarskarð

Séð yfir til Staðarskarðs

Liggur gamall vegslóði, en ökuleið þar var aflögð þegar vegur var lagður um Vattarnesskriður. Vegurinn liggur upp frá Höfðahúsum og kemur niður við Kolmúla við Reyðarfjörð. Skarðið er jeppafært og þetta er góð gönguleið. Gangan tekur 2 - 3 klst.

Gefið hefur verið út göngukort um Fáskrúðsfjörð með ýtarlegum upplýsingum um fyrrnefnda staði, auk ýmiskonar annarra áhugaverðra staða í firðinum. Kortið er hægt að nálgast á sýningunni "Fransmenn á Íslandi" sem er í Templaranum.