Mjóifjörður

Mjóifjörður er 18 kílómetra langur fjörður á milli Norðfjarðarflóa og Seyðisfjarðar. Eins og nafnið gefur til kynna er fjörðurinn mjór og einstaklega veðursæll.  Fjörðurinn státar af einstakri náttúrufegurð og hann er vel falinn fjársjóður inn á milli fjallanna.

Í Brekkuþorpi er allt að finna sem þurfa þykir í mannlegu samfélagi. Þar er kirkja, skóli, ferðamannaverslun, póstafgreiðsla, kaffistofa og þaðan er rekin útgerð og fiskeldi.

Að Asknesi er hægt að sjá leifar af gamalli hvalstöð, sem reist var af Norðmönnum um aldamótin 1900 og var hún sú stærsta í heiminum á þeim tíma. Þegar umsvif stöðvarinnar voru í hámarki unnu þar um 200 manns en í dag búa aðeins um 40 manns í Mjóafirði öllum.

Samgöngur við Mjóafjörð geta verið erfiðar yfir vetrarmánuðina en Flóabáturinn Anný (853 3004, 616 2630) gengur allt árið, á milli Brekkuþorps og Neskaupstaðar, tvisvar í viku. Góður vegur liggur um Slenjudal og yfir Mjóafjarðarheiði, en vetraropnun er þar ekki regluleg. Vegur er út með firðinum, að norðanverðu, allt út að Dalatanga.

Mikið berjaland er í Mjóafirði en frægastur er hann líklega fyrir mikla kyrrð og fallega fossa. 

Í dag búa að jafnaði um 25 manns í Mjóafirði.

Sorry we can't display map

Hugmyndir fyrir ferðamenn:

  • Aka út að Dalatanga og njóta þess að horfa í austur yfir hafið, eins langt og augað eygir.
  • Ganga frá Seyðisfirði yfir í Mjóafjörð og fara í kaffi í Sólbrekku. Upplýsingar um gönguleiðarkort á upplýsingamiðstöðvum á Austurlandi. Sólbrekka, sími 476 0007
  • Lesa sig til um hvalveiðar í Mjóafirði og gera síðan vettvangskönnun. Héraðskjalasafn Austfirðinga á Egilsstöðum
  • Fara í berjamó í víðáttum Mjóafjarðar.

Þjónusta

Upplýsingar um veitingar, gistingu, verslun og veiði  er að finna í Sólbrekku, sími 476 0007 og 476 0020. 

Flóabáturinn Anný sér um siglingar milli Norðfjarðar og Mjóafjarðar. Upplýsingar í síma 476 0007.

Áhugaverðir staðir

Klifbrekkufossar

Klifbrekkufossar er stórfengleg fossaröð innst inn í fjarðarbotni, hægra megin við þjóðveginn þegar ekið er niður af Mjóafjarðarheiðinn

Prestagil

Prestagil er innst inn í fjarðarbotni, sunnan megin í firðinum. Gilið dregur nafn sitt af prestum sem tældir voru af tröllskessu sem bjó í gilinu.

Hofsárgljúfur

Hofsárgljúfur er staðsett utan við Brekkuþorp en ekið er yfir það á leið til Dalatanga. Gilið er stórbrotið og forkunnafagurt.

Smjörvogur

Smjörvogur er utan við Hofsárgljúfur, niður við sjávarmál. Fyrr á tímum var vogurinn notaður sem fangageymsla, þar sem ófært er úr honum nema með aðstoð.