Þar sem hjartað slær

Reyðarfjörður er stærstur Austfjarða um 30 km. langur. Hafnarskilyrði eru hin ákjósanlegustu frá náttúrunnar hendi í firðinum.  Innst í fjarðarbotninum er samnefndur bær, sem áður var nefndur Búðareyri.  Búðareyri varð löggiltur verslunarstaður árið 1890. Árið 1884 höfðu Wathne-bræður, þeir Friðrik og Ottó, stofnað þar til útgerðar og verslunar. Árið 1909 var Kaupfélag Héraðsbúa stofnað á Reyðarfirði og með tilkomu bílaaldar og bílvegar um Fagradal um 1920 varð Reyðarfjörður aðalverslunarstaður héraðsins og fylgdi því mikil gróska á staðnum.

Enda þótt sjávarútvegur og fiskvinnsla hafi verið töluverð á Reyðarfirði hér áður vógu þessar greinar ekki hlutfallslega jafn þungt í atvinnulífi staðarins eins og í flestum öðrum sjávarbyggðum austanlands. Verslun, þjónusta og samgöngur skiptu verulegu máli einkum þegar vegasamband við Fljótsdalshérað komst á og verslun héraðsmanna fluttist til Reyðarfjarðar.

Nú er útgerð og fiskvinnsla hverfandi en atvinnulífið byggist á ört vaxandi þjónustu og byggingastarfsemi vegna álvers Alcoa-Fjarðaáls og Kárahnjúkavirkjunar. Höfuðstöðvar Vegagerðar ríkisins á Austurlandi eru á Reyðarfirði svo og aðalskrifstofa Fjarðabyggðar.

Árið 1930 tók Rafveita Reyðarfjarðar til starfa. Veitan er enn í notkun en hefur verið tengd við samveitukerfi Rafmagnsveitna ríkisins frá árinu 1958 og fær þaðan viðbótarrafmagn til að fullnægja orkuþörf staðarins. Árið 1930 voru íbúar Búðareyrar um 300, árið 1941 voru þeir 360 og árið 1990 bjuggu um 730 manns í Reyðarfjarðarhreppi.  Í dag búa tæplega 1.200 manns á Reyðarfirði.

Sorry we can't display map

Áhugaverðir staðir

Íslenska stríðsárasafnið

Hernámsdagurinn 2011

Stríðsárin eru eitthvert litríkasta tímabilið í íslenskri menningarsögu á síðari öldum. Þau nutu lítillar virðingar lengst af en hafa loks fengið uppreisn æru. Bretar hernumu Reyðarfjörð í síðari heimsstyrjöldinni, þar var fjölmennt setulið og víða stríðsminjar að finna. Íslenska stríðsárasafnið á Reyðarfirði var reist, árið 1995, í þeim tilgangi að gera fólki kleift að ferðast aftur til daga hersetunnar og ýmist rifja upp gömul kynni eða stofna til nýrra.Safnið er opið daglega frá 1.júní til 31.ágúst frá kl. 13:00 - 18:00 alla daga vikunnar. Utan þess tíma, eftir samkomulagi við safnvörð.

Hólmanes

Hólmanesið

Fólkvangur á nesinu milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar. Þar er mikið fuglalíf og sérkennilegar bergmyndanir. Afar ánægjulegur staður til útiveru, hvort sem er í klettum eða fjöru.

Völvuleiðið

Völvuleiði

Efst í Hólmahálsinum, nokkru ofan við veginn er leiði völvunnar sem hefur verndað Reyðarfjörð og Eskifjörð frá utanaðkomandi árásum um aldir.

Grænafell

Grænafell

Skjólsæll og vinalegt svæði undir kjarrivöxnum hlíðum Grænafells skammt vestan við bæinn. Auðveld stikuð gönguleið á fellið meðfram afar fallegu gili Geithúsaár.

Búðarárgil og Búðarárfoss

Gengið meðfram Búðaránni

Skemmtilegur göngustígur upp Búðarárgil, frá miðbænum upp í Stríðsárasafn.  Sé gengið áfram framhjá Stríðsárasafninu er komið að Búðarárfossi og fyrir ofan hann er stífla Rafveitu Reyðarfjarðar.  Fyrir ofan hana er Svínadalur.