Fjarðabyggðahafnir

Hafnarstjórn Fjarðabyggðar hefur umsjón með rekstri hafnarsjóðs og allri uppbyggingu á athafnasvæðum hafna. Leiðarljós hafnarstjórnar er að viðskiptavinum Fjarðabyggðarhafna sé veit framúrskarandi þjónusta á öllum sviðum hafnarstarfsemi. Hlutverk Fjarðabyggðarhafna er að þjónusta fyrirtæki með hafntengda starfsemi, sjá um samskipti við skip eða umboðsaðila þeirra, framkvæmd hafnsögu, aðstoð með dráttarbát, vigtun sjávarfangs og annað sem fellur undir hafnsækna starfsemi. Um Fjarðabyggðarhafnir fer mesti landaði sjávarafli á landsvísu. Hafnarstarfsemin er að sama skapi víðfeðm og dreifist hún á sjö hafnir eða hafnirnar á Mjóafirði, Norðfirði, Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði ásamt Mjóeyrarhöfn. Með tilkomu Mjóeyrarhafnar hefur vægi vöruflutninga aukist, en áhersla var áður aðallega á þjónustu við sjávarútveg. Höfnin er enn í uppbyggingu og heyrir undir Reyðarfjarðarhöfn.

Hjá Fjarðabyggðarhöfnum starfa ellefu starfsmenn í fullu starfi og starfsmaður í hlutastarfi við Mjóafjarhöfn. Á Stöðvarfirði sér starfsmaður þjónustumiðstöðvar um höfnina. Starfsmenn hverrar starfsstöðvar hafa umsjón með daglegum rekstri. Vinnutími þeirra er frá 8-17 virka daga, en auk þes eru starfsmenn á bakvöktum sem sinna útköllum utan vinnutímans. Starfsmenn Fjarðabyggðarhafna sjá um að veita hafnsögu- og dráttarbátaþjónustu, auk þess að sinna tilfallandi störfum hver á sinni starfsstöð. Fjarðabyggðarhafnir mynda sjálfstæða rekstrareiningu innan stofnanakerfis sveitarfélagsins. Framkvæmdastjóri Fjarðabyggðarhafna starfar með hafnarstjórn, sem fundar á hálfsmánaðar fresti.

 

                                          

Framkvæmdastjóri Fjarðabyggðarhafna

Framkvæmdastjóri Fjarðabyggðahafna fer með daglega stjórn hafnarinnar í umboði hafnarstjórnar. Hann ber ábyrgð á þjónustu og faglegum stuðningi við hafnarstjórn og gætir þess að mál sem lögð eru fyrir hana séu vel undirbúin og greinargóð. Hann veitir viðtöku erindum til hafnarinnar og ber ábyrgð á afgreiðslu þeirra sem og eftirfylgni ákvarðana hafnarstjórnar. Hann ber ábyrgð á undirbúningi fjárhags- og starfsáætlunar, gerð og framkvæmd stefnu- og skorkorts og hefur umsjón með fjármálum, rekstri, viðhaldi og nýbyggingum hafnarinnar.

Hann skal gæta að ákvæðum hafnalaga og hafnarreglugerða í rekstri og framkvæmdum hafnarinnar og gæta reglu á öllu hafnarsvæðinu hvort heldur er á sjó eða landi.  Hann er yfirmaður starfsmanna hafnarinnar og sér um ráðningar og uppsagnir. Hann annast samskipti við hagsmunaaðila og gætir þess að skipulag og framkvæmdir á hafnarsvæðinu fái umfjöllun umhverfis- og skipulagsnefndar. Starf framkvæmdastjóra Fjarðabyggðahafna heyrir beint undir bæjarstjóra og er hluti af stjórnendateymi Fjarðabyggðar.

Starfsmenn Fjarðabyggðarhafna

Nafn Starfsheiti Sími
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir Verkefnastjóri atvinnumála - Business development manager 861 7595
Steinþór Pétursson Framkvæmdastjóri Fjarðabyggðarhafna - Port Director 470 9016

Tengd skjöl