Skemmtifélag starfsmanna Fjarðabyggðar

Skemmtifélag starfsmanna Fjarðabyggðar (SSF) er nýr og áhugaverður félagsskapur. Auk þess að halda utan um skemmtanir og annan gleðskap, er tilgangur félagsins sá að afla félagsmönnum hópafslátta á vörum og þjónustu. Þá er félaginu einnig ætlað að mynda vettvang sem nýst getur félagsmönnum til fræðslu og eflingar í starfi og leik. Félagsmenn eru allir fastráðnir starfsmenn hjá Fjarðabyggð og greiða þeir mánaðarlegt gjald til félagsins af launum. Ekki þarf að sækja um félagsaðild.

Stjórn SSF er kjörin til tveggja ára í senn. Fyrstu stjórn félagsins skipa Stella Rut Axelsdóttir, formaður (Norðfjörður), Hildur Vala Þorbergsdóttir (Norðfjörður), Jón Hilmar Kárason (Norðfjörður), Guðrún Margrét Björnsdóttir (Eskifjörður), Hrönn Reynisdóttir (Eskifjörður), Andrea Borgþórsdóttir (Reyðarfjörður), Ólöf Gísladóttir (Reyðarfjörður), Guðfinna Erlín Stefánsdóttir, (Fáskrúðsfjörður), Heiðrún Ósk Ölverdóttir Michelsen (Fáskrúðsfjörður) og Jóna Petra Magnúsdóttir (Stöðvarfjörður).

Hugmyndaþing 2014 1

Skemmtifélag starfsmanna Fjarðabyggðar var stofnað á hugmyndaþingi starfsmanna  þann 5. apríl 2014. Mikill áhugi hefur verið á stofnun sameiginlegs félags fyrir starfsmenn Fjarðabyggðar, þvert á bæjarkjarna, meðal annars með sameiginlega árshátíð fyrir augum og hugsanleg afsláttarkjör svo fjölmenns félags, en á fimmta hundrað manns er á launaskrá hjá sveitarfélaginu. Á fyrsta hugmyndaþingi starfsmanna, í janúar 2013, var undirbúningshópur valinn til að sjá um undirbúning þess ásamt því að skipuleggja fyrstu sameiginlegu árshátíðina. Árshátíðin fór fram í íþróttahúsinu í Neskaupstað í september það ár og með stofnun félagsins hálfu ári síðar lauk undirbúningshópurinn störfum. Skemmtifélagið er fjármagnað með félagsgjöldum ásamt árlegu mótframlagi frá sveitarfélaginu. (Mynd: Hugmyndaþing 2104)

Hugmyndaþing 2014 6

Á fyrsta fundi sínum lagði nýkjörin stjórn drög að fyrsta starfsári SSF. Samþykkt var að næsta árshátíð fari fram í september 2014, en auk árshátíðarundirbúnings verður megináhersla lögð á að kanna afsláttarkjör félagsmönnum til handa. Þá samþykkti stjórnin kr. 750 í mánaðarleg félagsgjöld, sem dregin verða í fyrsta sinn af launum fastráðinna starfsmanna um mánðaarmótin ágúst/september 2014. Með því að greiða félagsgjöld njóta starfsmenn allra fríðinda sem SSF aflar félagsmönnum, s.s. lægri aðgangseyris og afsláttarkjara. Trúnaðarstörf á vegum Skemmtifélagsins eru ólaunuð og ganga félagsgjöld óskert upp í kostnað af þeim viðburðum sem félagið skipuleggur. Þeir starfsmenn sem eru fastráðnir og vilja segja sig úr félaginu þurfa að tilkynna úrsögn til launafulltrúa Fjarðabyggðar
(Mynd: Hugmyndaþing 2014, úr verkefninu Bæjarstjóri í einn dag.)