Fjarðabyggðaveitur

Í Fjarðabyggð eru vatnsveitur í öllum byggðarkjörnum og eru þær reknar sem sjálfstæðar einingar vegna landfræðilegra aðstæðna á hverjum stað. Fráveita er sjálfstæð eining í hverjum kjarna og er rekstur hennar og framkvæmdir kostaðar af bæjarsjóði. Rafveita Reyðarfjarðar selur raforku til heimilisnotkunar í þéttbýli á Reyðarfirði. Virkjun er við Búðará en veitan kaupir einnig raforku af Landsnetinu. Rarik veitir raforku til annarra þéttbýliskjarna í Fjarðabyggð. Hitaveita Fjarðabyggðar er á Eskifirði, en þar hafa verið virkjaðar tvær borholur sem sjá þéttbýli á Eskifirði fyrir rúmlega 80°C heitu vatni. Þá hefur fjarvarmaveita lengi verið rekin í Neskaupstað og á Reyðarfirði. Vatn er í báðum tilvikum hitað í rafskautakatli og er vþí eingöngu veitt til stórnotenda um lokað kerfi. Veitur Fjarðabyggðar heyra undir framkvæmdasvið og mannvirkjastjóra, 470 9019, mannvirkjastjori@fjardabyggd.is

Norðfjarðarsveit

Vatnsveita Fjarðabyggðar

Vatnsveita Fjarðabyggðar var stofnuð 1998 með sameiningu þriggja vatnsveitna, Vatnsveitu Neskaupstaðar, Vatnsveitu Eskifjarðar og Vatnsveitu Reyðarfjarðar. Vatnsveitan nýtir vatnsból á sex aðal vatnstökusvæðum og dreifir neysluvatni frá þeim til notenda áfram um þrjú aðskilin dreifikerfi. Við sameiningu við Austurbyggð í júní 2006 bættust við vatnsveitur á Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og í Mjóafirði.

Hlutverk Vatnsveitu Fjarðabyggðar er að annast alla almenna þjónustu við vatnsnotendur og tryggja að ætíð sé fyrir hendi nægt vatn. Vatnsveitan nýtir vatnsból á sex aðskildum megin svæðum og dreifir neysluvatni frá þeim til notenda áfram um aðskilin dreifikerfi. Allar veiturnar byggja og reka eigið vinnslu- og dreifikerfi. Eftirlits- og stýrikerfi veitunnar er sameiginlegt og samtengt í Neskaupstað, Eskifirði og á Reyðarfirði þannig að hægt er að fylgjast með og vakta allt kerfið frá þremur stöðum. Stefnt er að því að stýrikerfið nái til allra hluta vatnsveitunnar. Auk þess er hægt að skoða stöðu kerfis í gegn um heimasíðu Fjarðabyggðar fyrir þá sem aðgang hafa að því.

Til að tryggja neytendum hámarks gæði hefur Vatnsveita Fjarðabyggðar sett sér gæðamarkmið. Veitan mun leitast við að tryggja að settum markmiðum á eftirtöldum sviðum sé náð. Viðmiðin eru: 1. Vatnsmagn, 2. Vatnsgæði, 3. Réttur þrýstingur, 4. Afhendingaröryggi. Öryggi og góður aðbúnaður starfsmanna á vinnustað er ávallt í fyrirrúmi. Allar öryggisreglur eru í samræmi við kröfur Vinnueftirlits ríkisins svo og skráning og skýrslugjöf vegna atvika sem varða öryggi starfsmanna eða slysa. Nægjanlegt varaafl er til staðar í öllum þéttbýliskjörnum þannig að við straumrof til veitu er nægjanlegt vatnsmagn tryggt til notenda og til neyðarvarna.

Hægt er að rekja stöðu og breytingar allra þátta veitunnar aftur í tímann. Allir rennslismælar og aðrir nemar eru tölvutengdir þannig að hægt er að fylgjast með öllum þáttum veitunnar frá einni og sömu tölvunni. Þessu eftirlitskerfi er Hitaveita Fjarðabyggðar einnig aðili að, bæði hitaveita á Eskifirði sem og fjarvarmaveita í Neskaupstað. Kerfið sendir SMS boð til þeirra starfsmanna sem vakta kerfið um leið og einhver bilun eða uppákoma verður í einhverjum hluta veitunnar.

HITAVEITA

Hitaveita Fjarðabyggðar  annast öflun, dreifingu og sölu á heitu vatni til kyndingar og neyslu. Veitusvæði, til dreifingar á hitaorku/heitu vatni, er allt svæðið innan marka þéttbýlisins á Eskifirði sem markast af Mjóeyri að utan og býlinu Eskifirði að innan. Hitaveitan hefur einkarétt til dreifingar og sölu á hitaorku/heitu vatni á orkuveitusvæði sínu.

Hitaveita Neskaupstaðar (fjarvamaveita) var formlega stofnuð árið 1992. Landsvirkjun áskilur sér rétt til að taka rafmagnið út með litlum fyrirvara ef þörf krefur. Þessi samningur hefur gert Hitaveitunni kleift að bjóða upp á töluvert lægri orkugjöld en ella. Veitan þjónar aðeins stofnunum í Neskaupstað.

Fráveita

Fjarðabyggð starfrækir fráveitu, bæjarsjóður kostar rekstur hennar og framkvæmdir við hana. Bæjarstjórn ákveður framkvæmdir við fráveitu og veitir árlega fé á fjárhagsáætlun til reksturs og framkvæmda við hana.

Tæknideild bæjarins fer með umsjón, hönnun, framkvæmdir og rekstur fráveitu bæjarins í umboði bæjarstjórnar.

RAFVEITA REYÐARFJARÐAR

Rafveita Reyðarfjarðar aflar raforku til almenningsþarfa á Reyðarfirði með því að kaupa raforku frá öðrum, eða vinna hana sjálf, og veitir þeirri orku, sem þannig er keypt eða unnin, um orkuveitukerfi rafveitunnar.

Orkuveitusvæði rafveitunnar er lögsagnarumdæmi hins gamla Reyðarfjarðarhrepps. Rafveita Reyðarfjarðar hefur einkarétt til sölu á raforku beint til raforkunotenda á orkuveitusvæði sínu.

ÁBENDINGAR OG KVARTANIR

Mannvirkjastjóri Fjarðabyggðar, 
mannvirkjastjori@fjardabyggd.is  
eða forstöðumaður stjórnsýslu,
fjardabyggd@fjardabyggd.is
sími 470 9000.

YFIRSTJÓRN

Mannvirkjastjóri Fjarðabyggðar,
mannvirkjastjori@fjardabyggd.is,
sími 470 9019.