Umhverfi og álver 

Starfsemi Alcoa Fjarðaáls er háð starfsleyfi sem Umhverfisstofnun gefur út í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir (7/1998). Starfsleyfið skilgreinir starfsemina í stóru og smáu, s.s. umfang, leyfð umhverfisáhrif, innri og ytri mengunarvarnir, innra og ytra eftirlit, vottun þriðja aðila, mengunarvarnarbúnað, græna bókhaldsskyldu, upplýsingaskyldu til almennings, umhverfis- markmið og umhverfisvöktun. Núgildandi leyfi var gefið út árið 2010 að fenginni umsögn Vinnueftirlitsins, Skipulagsstofnunar, Náttúru- verndarsamtökum Austurlands, Landvernd, Náttúruverndar- samtökum Íslands, Fjarðabyggð, Heilbrigðiseftirliti Austurlands og Alcoa Fjarðaáls sf. Það gildir til ársins 2026 og skal endurskoðað á fjögurra ára fresti á gildistímanum.

Eftirlit með starfsemi Alcoa Fjarðaáls er margþætt. Opinberir eftirlitsaðilar eru Umhverfisstofnun (UST), sem fylgir eftir ákvæðum starfsleyfis og Matvælastofnun (MAST), sem hefur ásamt Heilbrigðis- eftirliti Austurlands, eftirlit með þeim umhverfisþáttum sem lúta að matvælaöryggi, neytendum og dýravernd. Alcoa Fjarðaál er með viðamikið innra og ytra eftirlit samkvæmt áætlunum sem UST sam- þykkir, getur breytt og hefur eftirlit með. Umhverfisvöktun er hluti af þessum áætlunum og hafa Náttúrustofa Austurlands og Nýsköp- unarmiðstöð Íslands unnið þær mælingar fyrir Alcoa Fjarðál. Þá standa Landsvirkjun og Alcoa Fjarðaál að Sjálfbærniverkefni sem byggir á samþykktum Sameinuðu þjóðanna og stefnu íslenskra stjórnvalda um sjálfbæra þróun.

Algengar spurningar

Flúor hefur mælst yfir viðmiðunarmörkum, hvað þýðir það?

Svör

Þessi viðmiðunarmörk taka mið af heilfóðri fyrir grasbíta og lúta að flúoruppsöfnun í grasi, en þeir eru viðkvæmir gagnvart því að flúor safnist upp í grasi, sér í lagi smærri grasbítar eins og sauðfé. Miðað er við 40 míkrógrömm í hverju grammi heilfóðurs að meðaltali yfir sumarið og fari uppsöfnun yfir þessi mörk, metur UST orsakir og úrbótaþörf í samstarfi við Alcoa Fjarðaál. MAST metur möguleg áhrif á grasbíta og aðgerðir þeim tengdum. 

Er flúor hættulegt efni?

 

Fullorðnir og börn þurfa að innbyrða að staðaldri umtalsvert magn um langt skeið eða mjög mikið magn í einu til þess að það geti talist hættulegt. Losunarheimildir álvera eru innan þeirra áhættumarka. Ástæða þess að fylgst er náið með flúor í nágrenni álvera lýtur fyrst og fremst að velferð grasbíta. Eitrunaráhrif í búfénaði koma fram verði gildi mjög há í beinum og tönnum, eins og vel er þekkt í eldgosum. 

Af hverju er fylgst með flúormagni í beinum og tönnum sauðfjár?

Grasbítar eru viðkvæmir fyrir flúoruppsöfnun í grasi, sér í lagi smærri grasbítar eins og sauðfé. Eitrunaráhrif felast í skemmdum tönnum af völdum tanngadds, auk þess sem hár styrkur í beinum getur leitt út í liði. Flúormælingar eru þannig mikilvægur liður í því að tryggja velferð grasbíta og hagsmuni í landbúnaði. Ekki er talin stafa hætta af neyslu sauðfjárafurða, jafnvel þó að flúorgildi mælist hátt í beinum og tönnum, þar sem flúor safnast ekki upp í vöðvum. 

Hvað með ber og garðávexti, eins og grænkál og rabarbara?

Óhætt er að borða ber og garðávexti, einnig af þeim svæðum þar sem flúormælingar hafa farið yfir viðmiðunarmörk. Um það lítinn efnisstyrk er að ræða að engin ástæða er til að óttast hvorki fyrir fullorðna né börn. Mælingar í Reyðarfirði sýna að styrkur í berjum og stilkum matjurta er hverfandi, innan við 5 míkrógrömm á gramm. 

Er mælt með því að skolað sé af berjum og garðávöxtum vegna flúors?

MAST mælir með því að ávalt sé skolað af ferskum berjum, ávöxtum, garðávöxtum og matjurtum, áður en þeirra er neytt. Með því móti skolist burt örverur, ryk og önnur aðskotaefni. Þessi varúðarregla er almenn og tengist ekki uppruna matvælanna. MAST bendir þeim á sem vilja takmarka flúorinntöku, að með þessu móti skolist einnig burt nær allur flúor, sé hann til staðar. 

Af hverju eru niðurstöður úr sumum flúormælingum í grasi í rauðum lit?

Niðurstöður reglubundinna flúormælinga í grasi eru sýndar sem punktar á korti af Reyðarfirði. Punktarnir eru 43 talsins, jafn margir sýntatökustöðum og bera mismunandi lit eftir efnisstyrk viðkomandi mælingar. Punktar eru rauðlitaðir þegar sýni mælist yfir 60 míkrógrömmum á hvert gramm. Dreifing niðurstaðna felur í sér mikilvæga vísbendingu um hvar í firðinum flúor safnast upp utan þynningarsvæðis álversins í samspili við umhverfisþætti. Grasbítar eru viðkvæmir fyrir flúor og er uppsöfnun í grasi í stöðugri vöktun. 

Er flúor algengt efni í umhverfinu?

Flúor er eitt algengasta frumefni jarðarinnar og finnst mjög víða í jurta- og dýraríkinu, andrúmslofti, sjó og jarðvegi. Rannsóknir sýna flúor sem langvirkasta efnið til varnar tannskemmdum og er notað í tannkrem, tannþræði o.fl. Margar af nágrannaþjóðum Íslendinga íblanda einnig flúor drykkjavatni í þessu skyni og telur Alþjóða heilbrigðisstofnunin, WHO, óhætt að íblanda 0,7 - 1,2 milligrömmum á hvern lítra drykkjarvatns. Te er einnig algeng uppspretta, en teplöntur eru á meðal þeirra fáu sem taka upp flúor úr jarðvegi. Algengar tegundir tes innihalda um 70 til 350 míkrógrömm af flúori í hverju grammi. Rabarbari er einnig í þessum sjaldgæfa flokki og safnast þá flúor í blaði matjurtarinnar, en ekki stilknum. 

Hvað er míkrógramm?

Míkrógramm (µg) er einn milljónasti úr grammi eða 0,000,001 gramm. Milligramm er einn þúsundasti úr grammi eða 0,001 gramm. 

Hvað með flúormælingar sem hafa farið yfir viðmiðunarmörk?

Viðmiðunarmörkin lúta að meðaltalsgildum fyrir heilfóður grasbíta. Veðurskilyrði hafa afgerandi áhrif á það hvort flúor safnist upp í grasi og hvar. Einstakar mælingar sveiflast af þessum sökum til í takti við veður og vinda og meta verður raungildi á grundvelli meðaltala úr reglubundnum mælingum. Uppsöfnun í grasi getur helst valdið usla þá mánuði sem sauðfé er á beit og heyjað er, en smærri grasbítar eru viðkvæmir gagnvart því.

Hvað veldur uppsöfnun flúors?

Dreifing og þynning flúors er háð veðurfari og landslagi hverju sinni. Hvass vindur eða rigning eykur þynninguna hratt á meðan sólríkir og lygnir dagar geta valdið uppsöfnum á afmörkuðum stöðum. Þá er dreifing einnig misjöfn eftir því hvort um flatlendi, dali eða firði er að ræða. Uppsöfnun á sér þannig stað án tillits til þess heildarmagns sem berst út í umhverfið og verður að meta hverju sinni hvort aukin flúorlosun eigi hlut að málum eða ekki. Í Reyðarfirði eru skýr tengsl á milli veðurskilyrða og uppsöfnunar. 

Hvernig er eftirliti með losun háttað?

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með því að álver uppfylli þau skilyrði sem starfsleyfi setur um losun. Það er gert með mánaðarlegum mælingum á allri losun og umhverfisvöktun sem vaktar áhrif þess á umhverfið. Starfsleyfismörk byggja á ýtrustu kröfum heilsu-, öryggis- og umhverfisverndar. Tilgangur stjórnvalda með starfsleyfiskerfinu er að tryggja, að starfsemi sem getur haft neikvæð áhrif á heilsu fólks, umhverfi og náttúru, sé ávalt innan varúðarmarka. Umhverfisstofnun hefur eftirlit með starfsleyfum.

Er flúormengun að aukast í Reyðarfirði?

Mælingar staðfesta að losun frá álverinu í Reyðarfirði er innan þeirra marka sem starfsleyfi áskilur. Það á við bæði um flúor og önnur losunarefni. UST hefur eftirlit með því að umhverfis- og öryggiskerfi álversins dragi eins vel og unnt er úr allri losun og að ávalt sé stuðst við bestu fáanlegu þekkingu og tækni, eins og kveðið er á um í starfsleyfi. Mælingar hafa einnig leitt í ljós uppsöfnun á flúor í grasi og metur UST í samstarfi við MAST áhrif þess og aðgerðaþörf. Skýr tengsl eru við verðurskilyrði, þegar svo ber undir á afmörkuðum stöðum í firðinum. 

Er flúorlosun álversins að aukast?

Mælingar staðfesta að flúorlosun er innan starfsleyfismarka. Á hinn bóginn sveiflast flúoruppsöfnun til í grasi utan þynningarsvæðis í Reyðarfirði í samspili við veður og vinda. Þurr og sólrík tímabil skila hærri meðaltalsgildum en þau sem eru vætu- og vindasöm. Augljósra skýringa er ekki að finna í aukinni losun að árinu 2012 undanskildu, þegar bilun varð í mengunarvarnarbúnaði álversins. Taflan sýnir meðaltalsgildi flúors í grasi í Reyðarfirði frá 2004 í míkrógrömmum á hvert gramm heilfóðurs:

'04 '05 '07 '08 '09 '10 '11 '12 '13 '14
3 6 6 22 25 31 12 52 38 31

Er flúorlosun álversins í lagi?

Reglubundið eftirlit er með því að öll losun sé innan áskilinna leyfismarka starfsleyfis. Það þýðir að efnisstyrkur er það lágur, að losun raskar ekki jafnvægi náttúrunnar eða almennum lífsskilyrðum. Loftgæðamælingar staðfesta að mengun af völdum losunar er óveruleg. Flúoruppsöfnun í grasi í samspili við veðurskilyrði gerir á hinn bóginn að verkum, að gæta verður sérstaklega að velferð grasbíta.

Hvað er verið að gera út af flúoruppsöfnun 
í grasi?

Uppsöfnun í grasi hefur verið að eiga sér stað þó að losun á flúor sé innan starfsleyfismarka. Skýringa er aðallega að finna í samspili veðurfars og landslags og þá einkum ef úrkoma er lítil og vindur hægur um samfellt skeið. UST fylgist náið með framvindu mála og metur aðgerðaþörf í samráði við MAST og Alcoa Fjarðaál.

Hvað gerist ef flúor í grasi mælist yfir viðmiðunarmörkum?

UST kallar eftir skýringum og greinir orsakir í samstarfi við öryggis- og gæðasvið álversins. Þá metur MAST möguleg áhrif á grasbíta og aðgerðir þar að lútandi. Ársmeðaltal hefur í eitt skipti farið yfir viðmiðunarmörkin, þegar bilun varð í mengunarvarnarbúnaði álversins árið 2012. UST brást við með fyrimælum um ítarlegri svæðisvöktun. Í samráði við MAST var einnig farið fram á sýnatökur úr kjálkum og sjónskoðun á tönnum grasbíta. 

Hvar er flúorlosun mæld?

Áhrif flúorlosunar á loftgæði, gróður, grasbíta og yfirborðsvatn eru vöktuð. Flúorlosun er mæld á fjórum stöðum eða í rjáfri álversins, í skorsteini, í andrúmslofti utan þynningarsvæðis og í gróðri í Reyðarfirði og nágrenni.

Hver eru áhrif af uppsöfnuðum flúor í grasi
í Reyðarfirði á grasbíta?

Sjónskoðun dýralæknis á dýrum og greining á beinum og tönnum benda ekki til greinilegra eitrunaráhrifa. Niðurstöður sýna hins vegar hækkun á milli ára í kjálkabeinum smærri grasbíta, bæði í lömbum og kindum. Ekki eru til föst gildi um styrk flúors í gróðri og grasbítum í reglugerðum og ekki er samræmi í vísindagreinum hvað varðar þolmörk búfjár við flúor í fóðri. Af þeim sökum er fylgst vel með þróun mála og gripið inn af hálfu UST ef niðurstöður vöktunar gefa tilefni til.

Hvaða áhrif getur flúor haft á heilsu fólks?

Flúor er í hóflegu magni góður fyrir tannheilsu. Íblöndun við drykkjarvatn hófst á fjórða áratug síðustu aldar og hefur fjöldi þjóða tekið það upp sem lið í almennri tannheilsustefnu. Það hefur verið umdeilt, aðallega vegna litaráhrifa (fluorosis) sem geta komið fram við flúorstyrkingu í glerungi. Um 2/3 hluti bandaríkjamanna neytir sem dæmi íblandaðs drykkjarvatns að staðaldri. Bandaríska umhverfisstofnunin, EPA, setur heilbrigðismörk við 2 milligrömm á lítra og hættumörk við 4 milligröm á lítra. Flúoreitrun (skeletal fluorosis) kemur fyrst fram í blettum og skemmdum á tönnum. Önnur áhrif eru liðverkir og aukin beinmyndun og áhrif á hjarta og æðakerfi. Ekki hefur verið sýnt fram á orsakasamhengi milli flúors og krabbameins.

Hver er hæfileg neysla flúors?

Á vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að dagleg flúorneysla er hæfileg um 0,3-3 milligrömm og fæst úr fjölmörgum fæðutegundum, eins og fiski, kjöti, eggjum, kartöflum, smjöri, osti og tei. Fiskur, sjávarsalt og te eru líklega bestu uppsprettur flúors úr fæðu.

Hvaða áhrif hefur flúor á plönturíkið?

Flúor leggst á yfirborð plantna í gas- eða rykformi. Þaðan getur efnið borist um loftaugun sem plöntur anda um og út í blöð þeirra. Flúor flyst ekki á milli plöntuhluta að neinu marki og upptaka flúors úr jarðvegi er flestum tilvikum lítil. Plöntur er misnæmar fyrir flúor auk þess sem áhrifin eru háð birtu- og rakaskilyrðum hverju sinni. Almennt er áætlað að um 5% plöntutegunda á afmörkuðum svæðum séu viðkvæmar fyrir flúor. Fylgst er náið með plönturíki Reyðarfjarðar í vöktunaráætlunum.

Hvaðan eru viðmiðunarmörk fyrir grasbíta komin?

Viðmiðunarmörkin byggja á bandarískum stöðlum um leyfilegan styrk flúors í heilfóðri og miða við að vernda alla grasbíta gegn eitrunaráhrifum. Meðaltal flúors má skv. þessum stöðlum á 1 mánaðar tímabili ekki fara yfir 80 míkrógrömm, á 2 mánað tímabili ekki yfir 60 míkrógrömm og á 12 mánað tímabili ekki yfir 40 mikrógrömm á hvert gramm heilfóðurs m.v. 0% rakainnihald. Hér á landi eru í gildi reglur um hámarksgildi í heilfóðri miðað við 12% rakainnihald á ótilgreindu tímabili. Þau eru umreiknuð m.v. 0% rakainnihald 56,8 míkgrömm fyrir kýr, sauðfé og geitur og 34,1 míkrógramm fyrir mjólkandi dýr, en fyrir hesta 170,5 míkrógrömm í hverju grammi heilfóðurs (rlg 340/2001).

Getur flúor valdið ónæmisviðbrögðum?

Samkvæmt upplýsingum WHO, Alþjóða heilbrigðistofnunarinnar, er það ekki algengt og helst í þeim löndum þar sem drykkjarvatn er íblandað. Einkenni hverfa í flestum tilvikum við það að dregið er úr neyslu íblandaðs vatns að hluta eða öllu leyti.  

Umræða hefur verið talsverð um flúor í Reyðarfirði, hver er staðan á mannamáli?

Segja má til einföldunar, að tvenns konar flúormælingar séu í gangi, annars vegar á losun á grundvelli starfsleyfis og hins vegar á uppsöfnun í grasi vegna grasbíta. Á sama tíma og heildarlosun hefur verið innan þeirra varúðarmarka sem starfsleyfi áskilur, gefa meðaltalsgildi til kynna aukna uppsöfnun í grasi í samspili við veðurskilyrði. UST hefur af þeim sökum farið fram á aukið umfang vöktunar og í samráði við MAST aukið sýnatökur úr beinum og sjónskoðun á tönnum grasbíta. 

Hvað verður um flúorinn sem er losaður?

Flúor er eitt algengasta frumefni jarðarinnar og finnst mjög víða, svo sem í andrúmslofti, sjó, jarðvegi og í dýra- og jurtaríkinu. Sá flúor sem álver hafa heimildir til að losa sanlagast jarðvegi sem torleysanleg sambönd.

Er áhætta til staðar fyrir þá sem hafa öndunarfærasjúkdóma og búa í nágrenni álvers?

Losunarheimildir taka mið af því að loftgæði spillist ekki. Mælingar á Reyðarfirði staðfesta nær óbreytt loftgæði eftir að álver Alcoa Fjarðaáls hóf starfsemi.

Hverjar eru losunarheimildir Alcoa Fjarðaáls í samanburði við önnur álver á Íslandi?

Af þeim starfsleyfum sem gefin hafa verið út til álvera hér á landi, eru losunarheimildirnar lægstar í starfsleyfi Alcoa Fjarðaáls. Er það í samræmi við niðurstöður í umhverfismati starfsleyfisins. Það mat tekur m.a. tillit til aðstæðna í Reyðarfirði og nágrenni.

Hver eru áhrif flúorlosunar á villt dýr og vistkerfi náttúrunnar á Austfjörðum.

Losunarheimildir Alcoa Fjarðaáls eru innan þeirra marka sem teljast skaðleg náttúrunni og vistkerfi hennar samkvæmt þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið. Viðmið losunarheimilda á náttúru hafa verið rannsökuð mjög víða um heim í tengslum við álver.