Vor í Fjarðabyggð

Árlegt vorhreinsunarátak fer fram í Fjarðabyggð dagana 26. til 30. maí. Starfsmenn sveitarfélagsins fara um bæjarkjarna þessa daga og fjarlægja garðúrgang sem settur hefur verið út fyrir lóðarmörk. Einnig er veitt aðstoð við að fjarlægja stærri hluti af lóðum, s.s. afskráða bíla og ónýt tæki. Þeir sem vilja nýta sér slíka aðstoð eru beðnir um að hafa snúa sér til framkvæmdasviðs Fjarðabyggðar á fjardabyggd@fjardabyggd.is eða í síma 470 9000. Þá eru fyrirtæki sveitarfélagsins og stofnanir hvattar til að halda umhverfisdag fyrir skipulega tiltekt og hreinsun umhverfis vinnustaðinn. Starfsmenn framkvæmdasviðs veita fúslega ráðgjöf varðandi skipulagningu og framkvæmd. Og sem fyrr aðstoða Veraldarvinir bændur við tiltekt á jörðum þeirra.

Vor 2014 smelltu hér

Matjurtagarðar

Afnot af garðlandi eru íbúum í Fjarðabyggð að kostnaðarlausu. Mælst er til þess að hver fjölskylda taki sér ekki stærri ræktunarreit en 50m2 og afmarki vel það svæði sem hún notar. Stefnt er að því að vinna garðlöndin í lok maí og verður auglýst á vef Fjarðabyggðar hvenær vinnslunni verður lokið. Garðyrkjumenn sveitarfélagsins veita faglega ráðgjöf á fjardbyggd@fjardabyggd.is eða í síma
470 9000. Staðsetning garðlanda er sú sama og áður. Norðfjörður: Svæði fyrir ofan Neskbakka. Eskifjörður: Svæði ofan Dalbrautar og innan spennistöðvar. Reyðarfjörður: Svæði í Teigagerði á milli kirkjugarðs og starfsmannaþorps. Fáskrúðsfjörður: Svæði á Kirkjubóli.  Stöðvarfjörður: Svæði utan skógræktar, utan við bæinn. Mikilvægt er að muna að skilja ekki plast eða annan ólífrænan úrgang eftir á svæðinu. 

matjurtagarðar

Eigendur gæludýra

Afar mikilvægt er að eigendur gæludýra sýni öðrum tillitssemi og fari eftir þeim reglum sem um dýrahaldið gilda. Á vef Fjarðabyggðar undir þjónustu eru samþykktir um hunda- og kattahald í sveitar-
félaginu ásamt kortum yfir skilgreind hundasvæði, en lausaganga hunda er bönnuð í þéttbýli Fjarðabyggðar. Kettir skulu hafa hálsól með bjöllu og vera örmerktir. Einnig eru eigendur hvattir til að halda köttum sínum innan dyra yfir varptíma fugla og á meðan ungar eru að verða fleygir. Þá eru eigendur annarra dýra, s.s. kanína og hænsna, hvattir til að hafa þrifalegt í kringum þau, með lífsgæði dýranna fyrir augum og tillitssemi við nágranna. 

Gæludýr

Breytt ásýnd

Mikið hefur áunnist á í umhverfismálum í Fjarðabyggð síðustu árin, sem rekja má til góðs samstarfs sveitarfélagsins við einstaklinga og fyrirtæki að fallegri ásýnd bæjarkjarna og hreinna umhverfi. Sem dæmi um þann ávinning sem samstarfið hefur skilað má benda á Hjallaleiru á Reyðarfirði, en samanburðarmyndir hér til hliðar sýna glöggt þann glæsilega árangur sem næst ef vilji er fyrir hendi. 

Loftmyndir af Hjallaleiru

Flokkum og skilum

Í Fjarðabyggð hefur endurvinnsluhlutfallið verið í kringum 15% af heimilissorpi, en markmiðið er að það nái 20%. Er þá átti við endurvinnanlegt hráefni úr grænu tunnunni sem hlutfall af heildarúrgangi í sveitarfélaginu. Í sambærilegum sveitarfélögum var þetta hlutfall á síðasta ári nokkuð hærra eða 20% í Stykkishólmi, 21% í Fjallabyggð og 23% á Fljótsdalshéraði. Setja má beint í grænu tunnuna öll dagblöð, tímarit, bæklinga, bylgjupappa og umbúðir úr sléttum pappa. Mundu bara að skola úr drykkjarfernunum áður. Smærri málmhluti og plastumbúðir mega einnig fara í tunnuna í glærum plastpokum. Allt endurvinnsluhráefni sem fer í grænu tunnuna er handflokkað af starfsmönnum Íslenska Gámafélagsins á Reyðarfirði og flutt út til endurvinnslu. Flokkum og skilum.
Það er einfaldara en þú heldur.

Baggi_stór

Garðeigendur athugið

Sjá þarf til þess að gróður trufli ekki eða hindri umferð gangandi, hjólandi og akandi vegfarenda:

  • Snyrta til limgerði eða annan trjágróður sem vex út á gangstéttir og stíga.
  • Klippa burt trjágróður sem vex fyrir eða skyggir á umferðarmerki.
  • Klippa til og snyrta gróður sem kann að vera nágrönnum til ama.  
  • Tré sem veldur miklum skugga á nágrannalóð getur þruft að fella.

Atvinnurekendur athugið

Fyrirtæki og aðrir lögaðilar bera ábyrgð á nærumhverfi sínu:

  • Umgengni og þrif á lóðum á að vera til sóma.
  • Vélar og tæki á að leggja skipulega að afloknum vinnudegi.
  • Efni sem unnið er með þarf að koma haganlega fyrir að afloknum vinnudegi . 
  • Farga verður því sem er ónýtt og koma í endurvinnslu eftir því sem við á.

Byggja - Breyta - Bæta

Nokkur algeng dæmi um leyfisskildar breytingar og viðbætur:
- Litlir garðskúra
- Pallar
- Girðingar og skjólveggir
- Varmadælur
- Móttökuloftnet og -diskar

Garðúrgangur

Losunarstaðir í Fjarðabyggð eru:
Norfjörður - gámur við þjónustumiðstöð
Eskifjörður - gámur neðan við söfnunarstöð
Reyðarfjörður - losað við Teigagerði
Fáskrúðsfjörður - losað í gryfju við söfnunarstöð
Stöðvarfjörður - losað við Byrgisnes

Gróðurmold í garðinn

Ef þig vantar mold, hafðu samband við verkstjóra næstu þjónustumiðstöðvar og athugaðu hvort hún sé fáanleg. Góð gróðurmold getur fallið til vegna framkvæmda í sveitarfélaginu. Blönduð gróðurmold fæst einnig keypt í byggingarvöruverslunum og blómabúðum.