Fjárhagsaðstoð

Rétt á fjárhagsaðstoð eiga þeir sem eiga lögheimili í Fjarðabyggð og hafa tekjur og eignir undir ákveðnum viðmiðunarmörkum. Aðstoðin getur verið í formi láns eða styrks.

Umsækjandi og maki/sambúðaraðili skulu kanna til þrautar rétt til annarra greiðslna áður en leitað er eftir fjárhagsaðstoð, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga. Hafi umsækjandi sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa eða hafnað starfsleitaráætlun, er heimilt að skerða fjárhagsaðstoð um helming mánuðinn sem atvinnutilboðinu var hafnað og næsta mánuð þar á eftir.

Umsækjandi þarf að tilkynna um breytingar á tekjum og fjölskylduaðstæðum, en slíkar breytingar geta haft áhrif á rétt til fjárhagsaðstoðar. Fjárhagsaðstoð sem veitt er á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga er alltaf endurkræf.

Óski umsækjandi þess að fjárhagsaðstoð sé í formi láns er lánið vaxtalaust. Fjárhagsaðstoð til einstaklings getur verið allt að kr. 115.567 á mánuði eftir skatt og kr. 184.907 á mánuði til hjóna eða fólks í sambúð.  Aðstoð er óháð barnafjölda, þar sem reiknað er með að barnabætur, meðlög og barnalífeyrir mæti kostnaði vegna barna.

Umsóknareyðublað er hægt að nálgast hér á vef Fjarðabyggðar, á bókasöfnunum og á bæjarskrifstofu. 
Afgreiðsla umsókna er hjá starfsfólki félagsþjónustu í síma 470-9000, netfang, felagsthjonusta@fjardabyggd.is

Umsókn gildir að öllu jöfnu frá þeim degi sem beiðni berst um aðstoð (eða umsókn er lögð fram). Dagsetja skal umsókn um fjárhagsaðstoð frá síðustu mánaðamótum og skoða jafnframt tekjur frá mánaðamótum á undan til að athuga hvort tekjur hafi verið hærri en viðmiðunartekjur. Hafi svo verið skerðist framfærsla umsóknarmánaðar um þá fjárhæð. Athugið að umsókn sem ekki er fyllt út að fullu er ógild.

Umsóknarferli

Umsækjandi skili inn umsókn sem er að fullu útfyllt og öllum fylgigögnum. Sé sótt um fjárhagsaðstoð til fleiri en eins mánaðar þarf viðkomandi að hafa samband við starfsmenn félagsþjónustu fyrir 25. hvers mánaðar til að gera grein fyrir þörf á áframhaldandi aðstoð.  Þess ber að geta að ákvarðanir um aðstoð nær að jafnaði ekki yfir lengra tímabil en þrjá mánuði og aldrei yfir lengra tímabil en sex mánuði í senn.

Mat á umsóknum fer fram á starfsfundum félagsþjónustu og er umsókn metin með tilliti til fjárhags- og félagslegra upplýsinga sem fram koma á umsóknum.  Allar tekjur einstaklings/maka, í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinn á undan, aðrar en greiðslur vegna barna og húsaleigubóta/vaxtabóta, koma til frádráttar við ákvörðun á upphæð fjárhagsaðstoðar. Með tekjum er átt við allar tekjur einstaklings/maka sem ekki eru sérstaklega til framfærslu barna, þ.e. atvinnutekjur, allar tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur o.s.frv. 

Eigi umsækjandi rétt til atvinnuleysisbóta, skal reikna atvinnuleysisbætur honum til tekna, hvort sem hann hefur stimplað sig eða ekki, nema framvísað sé læknisvottorði.

Umsóknir eru teknar fyrir af starfsfólki félagsþjónustu Fjarðabyggðar annan hvern miðvikudag.  Öllum umsóknum er svarað skriflega í kjölfar starfsfunda.

Sé umsókn samþykkt hefur starfsfólk félagsþjónustu samband við umsækjanda og greiðir þá upphæð sem umsækjandi á rétt á inn á reikning í nafni umsækjanda næstkomandi mánaðarmót. 

Tekið er við umsóknum á bókasöfnum og bæjarkrifstofu Fjarðabyggðar, Hafnargötu 2, 730 Fjarðabyggð.

Fylgögn með umsókn

  • Staðfestu afriti af síðasta skattframtali.
  • Afritum af launaseðlum síðustu þriggja mánaða EÐA afritum af launaseðlum síðustu þriggja mánaða frá Tryggingastofnun ríkisins EÐA afritum af greiðsluseðlum atvinnuleysisbóta síðustu þriggja mánaða og afrit af stimpilkorti frá Vinnumiðlun.
  • Læknisvottorð ef við á.
  • Skattkort.
  • Staðfesting frá skóla ef umsækjandi er í námi.
  • Staðfesting skóla um námsárangur ef umsækjandi er í námi.

ÁBENDINGAR OG kvartanir

Forstöðumaður stjórnsýslu, 
fjardabyggd@fjardabyggd.is
sími 470 9000.

Yfirstjórn

Félagsmálastjóri Fjarðabyggðar,
felagsthjonusta@fjardabyggd.is
sími 470 9017.