Húsaleigubætur

Leigjendur íbúðarhúsnæðis, með lögheimili og búsetu í Fjarðabyggð, eiga rétt á húsaleigubótum. Þó er skilyrði að húsaleigusamningur um viðkomandi húsnæði sé til sex mánaða hið minnsta og að samningi hafi verið þinglýst. Námsmenn eru undanþegnir skilyrði um lögheimili.

Réttur til húsaleigubóta er ekki fyrir hendi ef umsækjandi eða einhver sem í húsnæðinu býr er skyldmenni leigusala í beinan legg eða kjörbarn, fósturbarn, systkini, barn þeirra eða tengdaforeldri, ef umsækjandi eða einhver sem býr í húsnæðinu með honum nýtur réttar til vaxtabóta eða ef leigusamningur er til skemmri tíma en sex mánaða. Húsaleigubætur eru greiddar út fimmta hvers mánaðar og fer fjárhæð bóta eftir tekjum umsækjenda og leiguverði húsnæðis. 

Einnig eru til sérstakar húsleigubætur sem eru ætlaðar einstaklingum og fjölskyldum sem geta ekki séð sér fyrir húsnæði á annan hátt, sökum lágra launa, þungrar greiðslubyrði eða annarra félagslegra aðstæðna. Frekari upplýsingar og afgreiðsla umsókna er á höndum starfsmanns á fjármálasviði, sími 470 9000,
husaleigubaetur@fjardabyggd.is. Sjá einnig  lög um húsaleigubætur og reiknivél velferðarráðuneytisins fyrir húsleigubætur.

Umsókn með öllum fylgiskjölum skal berast í síðasta lagi 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Berist umsókn síðar verða húsaleigubætur ekki greiddar vegna þess mánaðar.  Endurnýja þarf umsókn um hver áramót og ef breytingar verða á tekjum eða leiguhúsnæði.

Umsóknarferli

Félagsþjónusta Fjarðabyggðar metur hverja umsókn út frá uppreiknuðum eignamörkum vegna húsaleigubóta frá velferðarráðuneyti sem breytast 1. janúar ár hvert. Umsóknir um húsaleigubætur eru teknar fyrir, eftir 16. dag hvers mánaðar, af starfsmanni á vegum félagsþjónustu Fjarðabyggðar. Húsaleigubætur eru greiddar út fimmta dag hvers mánaðar,

 en umsækjendur eru látnir vita símleiðis ef þeir eiga ekki rétt á bótum. Umsækjandi þarf að skila inn öllum fylgigögnum með umsókn. Sé umsókn samþykkt ber að hafa í huga að sækja þarf um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár og gildir umsóknin til ársloka. Umsóknareyðublöð má nálgast á vef Fjarðabyggðar, í þjónustugáttum bókasafna eða bæjarskrifstofu.

 

Fylgigögn með umsókn

  • Útfyllt og undirritað umsóknareyðublað.
  • Frumriti þinglýsts leigusamnings (nema húsnæðið sem við á sé eign sveitarfélagsins).
  • Staðfestu afriti frá skattstjóra af skattframtölum þeirra sem lögheimili/aðsetur eiga í íbúðinni fyrir sl. ár.
  • Launaseðlum þeirra sem í íbúðinni búa fyrir sl. þrjá mánuði eða upplýsingum um reiknað endurgjald vegna sjálfstæðrar starfsemi.
  • Staðfesting skóla um nám umsækjanda og/eða barna umsækjenda sem eru 20 ára og eldri.

 

         Vinsamlegast athugið að ekki er tekið við umsókn nema öll ofangreind gögn fylgi.

Ábendingar og kvartanir

Félagsmálastjóri í síma 470 9017 felagsthjonusta@fjardabyggd.is   
eða forstöðumaður stjórnsýslu í síma 470 9000 fjardabyggd@fjardabyggd.is

Yfirumsjón

Félagsmálastjóri Fjarðabyggðar, 
felagsthjonusta@fjardabyggd.is,
sími 470 9000.