Fjarðabyggð til framtíðar

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar ákvað í nóvember sl. að hrinda af stað verkefninu Fjarðabyggð til framtíðar, með áherslu á samráð við íbúa um rekstrarmál sveitarfélagsins. Á síðustu árum hefur þurft að laga rekstur Fjarðabyggðar að örum breytingum. Árangur hefur náðst í hagræðingu á flestum sviðum, en betur má ef duga skal. Svo að sveitarfélagið geti af fullu afli tekist á við tækifæri og áskoranir næstu ára, er enn frekari hagræðing í rekstri nauðsynleg. Verkefnið er unnið í samstarfi við  KPMG og á að vera lokið í aprílbyrjun. 

Haldnir verða íbúafundir í hverjum bæjarkjarna þar sem leitað verður eftir ábendingum og tillögum íbúa á mögulegum leiðum til hagræðingar. Staða sveitarfélagsins verður skoðuð, m.a. með aðstoð sviðsmynda, og ólíkir valkostir rýndir í framþróun samfélagsins, viðhaldi innviða og uppbyggingu. Allar hugmyndir, ábendingar og tillögur frá íbúum verða teknar saman. Upp úr þeim efnivið verða unnar hagræðingartillögur sem lagðar verða fyrir  bæjarstjórn Fjarðabyggðar til endanlegrar umfjöllunar. 

Íbúafundir Fjarðabyggðar til framtíðar

Hvenær  Bæjarkjarni  Staðsetning Tími
20. janúar Fáskrúðsfjörður Skólamiðstöð Fáskrúðsfjarðar 17:00-19:00
  Stöðvarfjörður Grunnskóla Stöðvarfjarðar 20:00-22:00
21. janúar Reyðarfjörður Grunnskóla Reyðarfjarðar 17:00-19:00
  Eskifjörður Grunnskóla Eskifjarðar 20:00-22:00
22. janúar Norðfjörður, Mjóifjörður Nesskóla 20:00-22:00

Skólamál Fjarðabyggðar til framtíðar

Hluti af Fjarðabyggð til framtíðar er helgaður skólamálum og hefur Ingvari Sigurgeirssyni, PhD, ráðgjafa hjá Skólastofunni slf. verið falið að leiða þann þátt verkefnisins. Markmiðið er að fjármagn sveitarfélagsins til leik-, grunn- og tónlistarskóla nýtist sem best, en tryggja um leið fagleg gæði skólastarfsins. Ingvar mun ræða fyrirliggjandi tillögur í skólamálum við bæjarstjórn, bæjarstjóra, fræðslustjóra, fræðslunefnd, starfsfólk skólaskrifstofu og skólaráð, ásamt stjórnendum og starfsfólki skólanna. Einnig mun Skólastofan kynna sér innra starf skólanna í Fjarðabyggð, aðstöðu og aðbúnað. 

Liður í verkefninu eru skipulagaðar heimsóknir Ingvars Sigurgeirs- sonar í skólastofanir sveitarfélagsins vikuna 19. til 24. janúar nk. Auk þess sem faglegt mat verður lagt á þær tillögur sem þegar liggja fyrir um skipan skólamála í Fjarðabyggð, getur Skólastofan lagt fram tillögur eða komið með ábendingar til úrbóta. Þeir íbúar eða foreldrar sem vilja koma ábendingum eða hugmyndum á framfæri um skólamál er bent á að hafa samband við Ingvar í síma 896 3829 eða á netfanginu ingvars@hi.is. Þá verður Ingvar einnig til staðar á þeim íbúafundum sem haldnir verða.

Vertu í sambandi

Ertu með hugmynd sem þú vilt koma á framfæri eða hugrenningar sem snerta Fjarðabyggð til framtíðar? Sendu okkur þá endilega línu með skilaboðaskjóðunni hér til hliðar.

Fjarðabyggð til framtíðar byggir á þátttöku allra íbúa sveitarfélagsins. Mikilvægt er að við látum að okkur kveða og séum ófeimin við koma hugmyndum okkar og skoðunum á framfæri. Allar hugmyndir og skoðanir eiga fullgilt erindi í umræðuna, svo framarlega sem þær eru manns eigin. 

Íbúafundirnir eru hugsaðir sem umræðu- og samráðsvettvangur. Ekki er þó víst að allir eigi heimangengt, auk þess sem góðar hugmyndir koma ekki alltaf eftir pöntun. Eins getur góð pæling eða mikilvæg ábending gleymst á fundum sem þessum.  Þá er um að gera að nota skilaboðaskjóðu verkefnisins.

Hugmyndir og tillögur sem lúta að leik-, grunn- eða tónlistarskólum Fjarðabyggðar má einnig senda Ingvari Sigurgeirssyni hjá Skólastofunni á ingvars@hi.is eða ræða við hann í síma 896 3829.

Senda Tilkynningu

   
   
   
   
Fylgiskjal

Orðaský hagræðing

Orðaský kyrrstaða