Stjórnkerfið

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar fer með æðstu stjórn sveitarfélagsins. Hún er kosin af Fjarðabúum í almennum kosningum til sveitarstjórna og er lögum samkvæmt fjölskipað stjórnvald. Bindandi ákvarðanir fyrir sveitarfélagið verða því einungis teknar á bæjarstjórnarfundum. Bæjarstjórn er heimilt að framselja vald sitt til nefnda og ráða innan sveitarfélagsins, þó ekki ákvarðanatökuvald sem varðar verulega fjárhagslega hagsmuni sveitarfélagsins. Forseti bæjarstjórnar er oddviti hennar. Kosið er til embættisins á fyrsta fundi að kosningum loknum og stýrir hann eftir það fundum bæjarstjórnar. Fundir bæjarstjórnar eru opnir og þeim er auk þess útvarpað beint á vef Fjarðabyggðar. Bæjarráð er skipað þremur bæjarfulltrúum. Það fer ásamt bæjarstjóra með daglegan rekstur sveitarfélagsins á milli bæjarstjórnarfunda. Bæjarstjóri er framkvæmdastjóri sveitarfélagsins og yfirmaður starfsliðs stjórnsýslunnar. Innanríkisráðuneytið fer með málefni sveitarfélaga. Ráðherra sveitarstjórnarmála skal gæta að og virða sjálfstjórn sveitarfélaga, verkefni þeirra og fjárhag.

Fjármálastjóri

Fjármálastjóri ber m.a. ábyrgð á undirbúningi stefnumótunar í fjármálum, yfirumsjón með fjárhags- og starfsáætlunargerð, rekstrareftirliti og tillögum til að auka hagkvæmni og skilvirkni í rekstri. 

Hann ber ábyrgð á innkaupamálum, fjárreiðum og álagningu og innheimtu gjalda, bókhaldi og ársreikningi.

Bæjarritari

Bæjarritari ber ábyrgð á stjórnsýslu, þróunarstarfi og nýsköpun í stjórnsýslu Fjarðabyggðar mannauðsmálum og undirbúningi stefnumótunar og upplýsingagjöf til starfsmanna og stjórnenda vegna launa- og starfsmannamála, samninga og verklagsreglna.  Þá ber bæjarritari ábyrgð á þjónustu bæjarskrifstofanna gagnvart íbúum, stjórnendum bæjarfélagsins og kjörnum fulltrúum. Hann hefur umsjón með launamálum og launavinnslu, starfsmannastefnu og starfsmannahaldi bæjarins, samskiptum vegna kjarasamninga og túlkun á þeim og stefnumörkun og eftirliti í starfsþróunar og símenntunarmálum. 

Þá hefur hann yfirumsjón með rekstri upplýsingakerfa bæjarins og miðlun almennra upplýsinga innan og utan sveitarfélagsins.  Bæjarritari ber ábyrgð á þjónustu og ráðgjöf við bæjarstjórn og bæjarráð. Hann ber ásamt bæjarstjóra og forseta bæjarstjórnar ábyrgð á að mál séu vel undirbúin fyrir bæjarstjórnarfundi og gögn aðgengileg og greinargóð.  Sama á við um undirbúning mála fyrir bæjarráðsfundi með formanni bæjarráðs og bæjarstjóra. Þá ber hann ábyrgð á eftirfylgni mála sem afgreidd eru í bæjarráði, bæjarstjórn og atvinnu-og menningarnefnd. Fyrir hönd bæjarstjórnar annast hann eftirlit með framkvæmd heildarstefnukorts Fjarðabyggðar. Bæjarritari er staðgengill bæjarstjóra. Hefur yfirumsjón með ferða- upplýsinga- og menningarmálum sveitarfélagsins í nánu samráði og samstarfi við bæjarstjóra.

Fræðslustjóri

Fræðslustjóri á náið samstarf við félagsmálastjóra um stefnumótun og þjónustu fjölskyldusviðs. Hann er yfirmaður fræðslu- frístunda- og tómstundamála hjá Fjarðabyggð og þeirra starfsmanna sem heyra undir þau málefni. Hann ber ábyrgð á undirbúningi stefnumótunar í fræðslu- og frístundarmálum, samhæfingu skólastarfs Fjarðabyggðar og tengslum við önnur skólastig, skólaskrifstofu og fræðslustarf í landshlutanum.  Hann ber ábyrgð á undirbúningi stefnumótunar varðandi skipulagt tómstundastarf í Fjarðabyggð á sviði íþrótta- og æskulýðsmála.  Hann skal leita leiða til að virkni frjálsra félagasamtaka verði sem mest í samfélagslegum viðfangsefnum.  Þá skal hann vinna að því að hámarka nýtingu tómstundamannvirkja sem sveitarfélagið hefur yfir að ráða hvort heldur um er að ræða íþróttabyggingar, félagsmiðstöðvar eða aðrar byggingar nýttar til tómstundastarfs.  Hann skal ásamt næstu undirmönnum sínum leitast við að virkja félagsauðinn í samfélaginu sem best m.a. með þjónustu- og styrkjasamningum. 

Hann ber ábyrgð á þjónustu og faglegum stuðningi við fræðslu- og frístundanefnd og eftirfylgni ákvarðana nefndarinnar.  Hann annast undirbúning funda nefndarinnar með formanni, sér um að mál séu vel undirbúin og skriflegar tillögur og gögn greinargóð og annast eftirfylgni ákvarðana nefndarinnar.  Hann samhæfir starfskrafta sinna næstu undirmanna m.a. í undirbúningi funda nefndarinnar og ber ábyrgð á að gögn sem lögð eru fyrir séu greinargóð.  Hann hefur frumkvæði að samskiptum og aðgerðum til að styrkja menntasamfélagið í Fjarðabyggð.  Hann hefur yfirumsjón með og ber ábyrgð á fjárhags- og starfsáætlun fyrir fræðslu – íþrótta og tómstundamál og eftirlit með skólastarfi og árangri þess.  Hann skal fylgjast með tölfræði varðandi þróun skólastarfs og leita leiða til samanburðar við skóla annars staðar sem þykja til fyrirmyndar í starfi.

Félagsmálastjóri

Félagsmálastjóri á náið samstarf við fræðslustjóra um stefnumótun og þjónustu fjölskyldusviðs. Hann er yfirmaður félagsþjónustu og barnaverndar og þeirra starfsmanna sem vinna við þá málaflokka. Hann ber ábyrgð á undirbúningi stefnumótunar á sviði velferðarmála og þjónustu og faglegum stuðningi við barnaverndarnefnd og félagsmálanefnd.  Hann annast undirbúning funda félagsmálanefndar og barnaverndarnefndar með formönnum og sér til þess að mál séu vel undirbúin og greinargóð gögn og tillögur lögð fram skriflega. Hann skal jafnframt sjá til þess að ákvörðunum nefndanna sé fylgt eftir og hrundið í framkvæmd. 

Hann sér um áætlunargerð í barnavernd, öldrunarþjónustu og tengsl við hagsmunaaðila vegna þessara viðfangsefna og jafnframt samskipti við heilbrigðisstarfsmenn, löggæslu og aðra vegna viðfangsefna félagsþjónustunnar. Ábyrgð á liðveislu og (ferlimálum) málefnum fatlaðra og félagslegri heimaþjónusta.  Aðgangur að félagslegum búsetuúrræðum, fjölskyldu- og einstaklingsráðgjöf auk fjárhagsaðstoðar er á ábyrgð félagsþjónustunnar. Félagsmálastjóri situr í þjónustuhópi Skólaskrifstofu Austurlands vegna málefna fatlaðra. Hann hefur yfirumsjón með og ber ábyrgð á fjárhags-og starfsáætlun fyrir félagsmálin.

Mannvirkjastjóri

Mannvirkjastjóri ber ábyrgð á undirbúningi stefnumótunar í umhverfis- og ásýndarmálum, framkvæmdum, gæðakröfum í byggingu fasteigna og viðhaldi þeirra og samskiptum við leigutaka sem nýta mannvirki bæjarins.  Hann hefur yfirumsjón með skipulags- og byggingarmálum, skráningu fasteigna o.þ.u.l.  Gróðurmál, þ.m.t. torg, opin svæði og bæjargarðar eru í umsýslu hans.  Hann ber ábyrgð á söfnun og meðferð úrgangs, staðardagskrármálum og verkefnisstjórn vinnuskóla. Hann skal annast tengsl við hagsmunaaðila s.s. skógræktarfélög og hafa yfirumsjón með verkefnum sem tengjast landbúnaði s.s. fjallskilamálum, búfjáreftirliti o.fl.

Hann hefur yfirumsjón með málefnum slökkviliðs og brunavarna, eignasjóðs, veitna bæjarins, þjónustumiðstöð og tækjamiðstöð og umferðar- og umferðaröryggismálum.  Hann ber ábyrgð á nýbyggingarverkefnum og hönnunar- og byggingarstjórn og vinnur með eigna-, skipulags og umhverfisnefnd tillögu til bæjarráðs um forgangsröðun nýframkvæmda og viðhaldsáætlanir fasteigna bæjarins. Hann ber ábyrgð á þjónustu og faglegum stuðning við eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd og skal gæta þess að mál sem lögð eru fyrir nefndina séu vel undirbúin og greinargóð.  Hann skal jafnframt sjá til þess að ákvörðunum nefndarinnar sé fylgt eftir og hrundið í framkvæmd.  

Framkvæmdastjóri Fjarðabyggðahafna

Framkvæmdastjóri Fjarðabyggðarhafna fer með daglega stjórn hafnarinnar í umboði hafnarstjórnar.  Hann ber ábyrgð á þjónustu og faglegum stuðningi við hafnarstjórn og gætir þess að mál sem lögð eru fyrir hana séu vel undirbúin og greinargóð.  Hann veitir viðtöku erindum til hafnarinnar og ber ábyrgð á afgreiðslu þeirra sem og eftirfylgni ákvarðana hafnarstjórnar.  Hann ber ábyrgð á undirbúningi fjárhags- og starfsáætlunar, gerð og framkvæmd stefnu- og skorkorts og hefur umsjón með fjármálum, rekstri, viðhaldi og nýbyggingum hafnarinnar.

Hann skal gæta að ákvæðum hafnalaga og hafnarreglugerða í rekstri og framkvæmdum hafnarinnar og gæta reglu á öllu hafnarsvæðinu hvort heldur er á sjó eða landi.  Hann er yfirmaður starfsmanna hafnarinnar og sér um ráðningar og uppsagnir.  Hann annast samskipti við hagsmunaaðila og gætir þess að skipulag og framkvæmdir á hafnarsvæðinu fái umfjöllun umhverfis- og skipulagsnefndar. Fjarðabyggðarhafnir er sjálfstæð rekstrareining og starfið heyrir beint undir bæjarstjóra og er hluti af stjórnendateymi Fjarðabyggðar.